Skoðun

Í mínus

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar taka í síauknum mæli á móti fjölskyldum sem eru í þeirri stöðu að hafa minna en ekkert á milli handanna eftir að fastaútgjöld heimilisins hafa verið greidd um mánaðamót. Bara í síðustu viku leituðu þrjár fjölskyldur til okkar sem voru í þeirri stöðu í ágústbyrjun að fastaútgjöldin voru hærri en útborguð laun og allar bætur og styrkir samanlagt.

Hvaða útgjöld eru þetta? Jú, húsnæðiskostnaður, sími, rafmagn og hiti, tryggingar, skólamáltíð, samgöngukostnaður - og afborgun lána. Það er nefnilega þannig að þegar fjárhagsstaðan er endurtekið í mínus getur hún ekki annað en versnað. Þá eru tekin yfirdráttarlán og fólk festist í vítahring fátæktar. Í sumum tilfellum getur stórfjölskyldan hlaupið undir bagga tímabundið. Aðrir hafa ekki tengslanet sem grípur þá í neyð.

Þegar fjárhagsstaðan er endurtekið í mínus er hætt við því að börnin líði fyrir. Frístundastyrkurinn dugar fyrir frístund eftir skóla en þá er ekkert eftir í iðkunargjöld hjá íþróttafélögum. Þá er heldur ekkert eftir til að kaupa íþróttabúnað eða greiða fyrir ferðir með hinum krökkunum þar sem dýrmæt félagsleg tengsl verða.

Þegar fjárhagsstaðan er í mínus til lengri tíma er erfitt að greiða skólagjöld í framhaldsskóla og dekka efniskostnað. Það er eiginlega ómögulegt að fæða og klæða börnin almennilega hvað þá að kaupa handa þeim síma eða hlaupabretti eins og hinir krakkarnir fá.

Sveitarfélögin brugðust vel við áskorun almennings fyrir fáum árum og nú bera barnafjölskyldur lítinn sem engan kostnað af ritfangakaupum í upphafi skólaárs en betur má ef duga skal. Iðkunargjöld til dæmis fyrir fótbolta og fimleika eru hjá mörgum félögum um 100 þúsund krónur á ári en frístundastyrkur Reykjavíkurborgar er til dæmis um 50 þúsund krónur. Þegar staðan er í mínus er ekki hægt að dekka mismuninn.

Mjög stór hluti ráðstöfunartekna fjölskyldna sem til Hjálparstarfsins leita fer í að greiða fyrir húsnæði og svo hefur verið í mörg ár. Það er brýnt að stjórnvöld finni leiðir til að lækka húsnæðiskostnað heimilanna. Aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar við fjölskyldur sem hafa minna en ekkert á milli handanna er neyðaraðstoð til skamms tíma. Við verðum sem samfélag að grípa fólk og þá sérstaklega barnafjölskyldur sem eru í alltaf í mínus.

Höfundur er fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×