Erlent

Biden ætlar ekki á landsfund Demókrataflokksins

Kjartan Kjartansson skrifar
Kórónuveirufaraldurinn hefur komið í veg fyrir að Joe Biden geti háð hefðbundna kosningabaráttu. Nú eru aðeins tæpir þrír mánuðir í kjördag.
Kórónuveirufaraldurinn hefur komið í veg fyrir að Joe Biden geti háð hefðbundna kosningabaráttu. Nú eru aðeins tæpir þrír mánuðir í kjördag. AP/Andrew Harnik

Joe Biden, væntanlegt forsetaefni Demókrataflokksins, ætlar ekki að verða viðstaddur landsfund í Wisconsin þar sem hann verður formlega útnefndur forsetaframbjóðandi flokksins í þessum mánuði vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki liggur fyrir hvernig útnefningin fer fram.

Bakslag hefur komið í kórónuveirufaraldurinn víða í Bandaríkjunum og hefur Biden nú ákveðið að mæta ekki á landsfund Demókrataflokksins í Milwaukee í persónu vegna þess. Tony Evers, ríkisstjóri Wisconsin og demókrati, hrósaði Biden fyrir að fara fram með góðu fordæmi.

Hvorki framboð Biden né landsnefnd Demókrataflokksins hefur skýrt hvernig Biden ætlar að taka við tilnefningunni. Búist er við því að allir ræðumenn á fundinum muni ávarpa hann í gegnum fjarfundarbúnað. Fundurinn fer fram dagana 17.-24. ágúst.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í dag kanna möguleikann á því að ávarpa landsfund Repúblikanaflokksins frá Rósagarðinum við Hvíta húsið í gegnum fjarfundarbúnað. Landsfundurinn á að fara fram í Charlotte í Norður-Karólínu.


Tengdar fréttir

Trump aflýsir landsþingi Repúblikana

Bandaríkjaforseti hefur tekið ákvörðun um að aflýsa landsþingi Repúblikanaflokksins sem átti að fara fram í Flórída í lok ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×