Innlent

Beið á þaki bílsins í tvær klukkustundir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bíllinn var djúpt sokkinn þegar björgunarmenn komu að.
Bíllinn var djúpt sokkinn þegar björgunarmenn komu að. Landsbjörg

Ökumaður sem var á leið yfir Kaldaklofskvísl við Hvanngil í morgun festi bíl sinn í ánni og þurfti að koma sér upp á þak bifreiðarinnar til að forða sér frá vatni sem flæddi inn. Ökumaðurinn var búinn að vera á þaki bílsins í um tvær klukkustundir þegar björgunarmenn komu að honum, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli voru kallaðar út vegna ökumannsins. Í tilkynningu segir að vel hafi tekist að koma manninum í land en nú rétt fyrir hádegi var enn unnið að því að koma bílnum úr ánni.

„Var hann farinn að grafast niður og mátti því ekki tæpara standa að bjarga manninum,“ segir í tilkynningu.

Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg segir í samtali við Vísi að maðurinn, erlendur ferðamaður, hafi verið einn á ferð. Tilkynning um ógöngur mannsins hafi borist frá vegfaranda sem var að ganga Laugaveginn og kom að honum í ánni. Jónas segir manninum ekki hafa orðið meint af en hann hafi þó verið orðinn nokkuð kaldur og hrakinn.

Landsbjörg bendir á að vegna rigninga hefur vaxið mikið í ám á hálendinu. Margar þeirra eru því illfærar og jafnvel ófærar óbreyttum jeppum.

Bíllinn í miðri ánni.Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×