Fótbolti

Ragnar spilar ekki gegn Robinho, Demba Ba og félögum í kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar Sigurðsson fer meiddur af velli í leik gegn Midtjylland.
Ragnar Sigurðsson fer meiddur af velli í leik gegn Midtjylland. VÍSIR/GETTY

Ragnar Sigurðsson er ekki í leikmannahópi FCK sem mætir Istanbul Basaksehir í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Ragnar er á meiðslalistanum og verður því ekki í leikmannahópnum í kvöld en hann var einnig meiddur í fyrri leik þessara liða sem fór fram í mars, rétt áður en öllu var skellt í lás vegna veirunnar.

FCK tapaði fyrri leiknum 1-0 í Tyrklandi svo það er allt opið fyrir síðari leikinn sem fer fram fyrir luktum dyrum á þjóðarleikvangi Dana, Parken, í kvöld.

Istanbul Basaksehir er með ansi marga þaulreynda leikmenn í sínum herbúðum en þeir urðu tyrkneskir meistarar á dögunum. Þar má m.a. nefna Demba Ba, Robinho og Martin Skrtel.

Sigurvegarinn úr viðureign FCK og Istanbul Basaksehir mætir að öllum líkindum Man. United í næstu umferð en United leiðir 5-0 eftir fyrri leikinn gegn LASK.

Síðari leikur United og LASK fer einnig fram í kvöld en báðir leikirnir verða í beinni útsendingunni á Stöð 2 Sport. Leikurinn í Danmörku klukkan 16.55 en United klukkan 19.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×