Viðskipti innlent

Icelandair hefur undirritað samninga við flesta kröfuhafa

Sylvía Hall skrifar
Þegar allir samningar liggja fyrir verður fjárfestakynning kynnt með ítarlegum upplýsingum fyrir væntanlega fjárfesta.
Þegar allir samningar liggja fyrir verður fjárfestakynning kynnt með ítarlegum upplýsingum fyrir væntanlega fjárfesta. Vísir/Vilhelm

Samningaviðræður Icelandair við kröfuhafa eru vel á veg komnar og hafa samningar við flesta verið undirritaðir. Þá ganga samningaviðræður við Boeing vel en þær viðræður snúast um frekari bætur vegna kyrrsetningar MAX vélanna og að breytingar verði gerðar á framtíðarafhendingu vélanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu nú í kvöld. Þar kemur jafnframt fram að unnið hafi verið að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum. Það er þó háð því að hlutafjárútboðið gangi vel og félagið nái sínum markmiðum í þeim efnum.

Þegar allir samningar liggja fyrir verður fjárfestakynning kynnt með ítarlegum upplýsingum fyrir væntanlega fjárfesta og þátttakendur í útboðinu en samningar við kröfuhafa og flugstéttir félagsins voru helsta forsenda þess að félagið gæti hafið hlutafjárútboð og lokið við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.

„Félagið hefur nú þegar undirritað nýja langtímasamninga við stéttarfélög flugmanna, flugfreyja og flugþjóna og flugvirkja sem munu auka sveigjanleika og samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma,“ segir í tilkynningunni.

Samningarnir við kröfuhafa eru háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár líkt og skilyrðin eru fyrir láni með ríkisábyrgð. Samningaviðræðurnar hafa miðað að því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri og munu samningarnir tryggja nauðsynlegan sveigjanleika til að byggja upp starfsemi félagsins hratt og örugglega á ný.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×