Erlent

Fjarlægja styttur af Kristófer Kólumbus

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Önnur styttanna tveggja sem fjarlægðar voru.
Önnur styttanna tveggja sem fjarlægðar voru. Scott Olson/Getty

Tvær styttur af 15. aldar landkönnuðinum Kristófer Kólumbus hafa verið teknar niður í bandarísku borginni Chicago, að skipun borgarstjórans. Vika er síðan mótmælendur reyndu að fella styttu af honum.

Í kjölfar morðsins á George Floyd í Bandaríkjunum og mótmælaöldunnar sem fylgdi, þar sem barist hefur verið gegn kerfisbundnum kynþáttafordómum og lögregluofbeldi, hefur skapast mikil umræða í Bandaríkjunum um minnismerki um menn sem vitað er að héldu þræla eða stuðluðu að drápi á innfæddum Ameríkönum.

Í yfirlýsingu frá skrifstofu borgarstjóra Chicago, Lori Lightfoot, segir að stytturnar tvær, sem stóðu í Grant Park og Arrigo Park, hafi verið „fjarlægðar tímabundið“ og „þar til annað verður ákveðið.“ Þá segir að stytturnar hafi verið fjarlægðar að skipun hennar.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Brendu Armenta, íbúa borgarinnar, að það sé frábært að sjá styttuna tekna niður. Nokkrum klukkustundum áður en styttan í Grant Park var tekin niður höfðu mótmælendur tekist á við þá sem vildu að styttan fengi að standa.

Fyrr í þessum mánuði var þriggja metra há bronsstytta af Kólumbusi, sem er oft sagður hafa uppgötvað Ameríku, rifin niður í Saint Paul í Minnesota-ríki. Þá var önnur stytta af landkönnuðinum afhöfðuð. Sú er í Boston.

Afkomendur innfæddra Ameríkana (e. Native Americans) hafa löngum gagnrýnt það að Kólumbusi sé hampað með styttum og öðrum minnismerkjum og segja för hans til Ameríku hafa leitt til nýlendustefnu og þjóðarmorðs á forfeðrum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×