Innlent

Katrín stefnir á kosningar í september á næsta ári

Heimir Már Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Stjórnarráðinu í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Stjórnarráðinu í dag. vísir/baldur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að alþingiskosningar fari fram þann 25. september á næsta ári. Núverandi kjörtímabil hófst að loknum kosningum 28. október 2017 og því rennur það ekki út fyrr en þann dag árið 2021. Oftast hefur verið kosið til Alþingis á Íslandi í lok apríl eða byrjun maí.

Forsætisráðherra segist hafa rætt þessa tillögu sína við formenn flokkanna.

„Ég tel í fyrsta lagi eðlilegt að við viðhöldum þeirri reglu að kjörtímabil séu fjögur ár. Þetta er þá eins nálægt því og verður komist. Að teknu tilliti til þess að við séum að heyja kosningabaráttu í sæmilegu veðri og sæmilegri færð, sem er ágætt í september. Sömuleiðis að ríkisstjórn sem verður mynduð að loknum næstu kosningum hafi þann tíma sem þarf til að ljúka við fjárlagagerð," segir Katrín.

Í nýju lagaumhverfi um opinber fjármál, þar sem alltaf sé verið að vinna út frá langtímaáætlunum, ætti tíminn frá lokum september að vera nægur.

„Ég tel raunar að þegar við horfum til lengri tíma og sjáum hvaða kostir gætu falist í að hafa kosningar að hausti komumst við framhjá því sem lengi hefur verið kallað kosningafjárlög. Þar sem sett eru fram fjárlög sem eiga að hafa áhrif á stemminguna fyrir kosningar. Ég held að þessi tímasetning sé góð til að einmitt losna við þann sið,“ segir Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×