Erlent

„Ekki fara sænsku leiðina“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, á blaðamannafundi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, á blaðamannafundi vegna kórónuveirufaraldursins. EPA-EFE/ANDERS WIKLUND

Tuttugu og fimm sænskir vísindamenn segja leiðina sem farin var í Svíþjóð til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum gott dæmi um hvernig eigi ekki að bregðast við honum. Sænska leiðin hafi leitt til dauða, sorgar og þjáninga auk þess sem ekkert bendi til þess að sænska hagkerfið hafi komið betur út úr faraldrinum.

Hópurinn skrifaði skoðanagrein sem birt var í USA Today í dag og fjalla þeir um mistökin sem voru gerð þegar sænsk yfirvöld ákváðu að fara þá leið sem þau völdu. Eins og þekkt er orðið ákváðu sænsk yfirvöld að bregðast ekki við faraldrinum á jafn afgerandi hátt og mörg önnur ríki, þar á meðal hin Norðurlöndin fjögur, og segja vísindamennirnir það hafa haft alvarlegar afleiðingar.

Þeir benda á að mörg önnur ríki hafi farið svipaða leið og Svíþjóð til að byrja með en þegar smitin urðu fleiri og dauðfjöllum fjölgaði hafi mörg þeirra snúið baki við leiðinni, hert á samkomureglum, skyldað fólk til að bera grímur fyrir vitum og svo framvegis. Það hafi sænsk yfirvöld hins vegar ekki gert og þess í stað haldið sig við léttar aðgerðir.

Þá hafi óformlegt markmið sænskra heilbrigðisyfirvalda verið að ná hjarðónæmi meðal íbúa en það hafi ekki skilað sér. Tölur sýni að aðeins 10 prósent þjóðarinnar hafi mótefni gegn veirunni sem sé hvergi nærri því nóg til að teljast hjarðónæmi. Auk þess sé dánartíðnin í Svíþjóð sláandi og hún sé hærri en í Bandaríkjunum, sem hafa verið talin hvað verst stödd hvað varðar veiruna: 556 dauðsföll séu í Svíþjóð á hverja milljón íbúa, miðað við 435 í Bandaríkjunum miðað við tölur frá 20. júlí.

„Dánartíðnin í Svíþjóð er jafnframt meira en 4,5 sinnum hærri en í hinum fjórum Norðurlöndunum samanlagt – og meira en sjö sinnum hærri miðað við hverja milljón íbúa,“ segir í greininni. „Og þrátt fyrir þetta er áætlunin í grunninn enn sú sama.“

„Við trúum því að hægt sé að læra af Svíþjóð en ekki á þann hátt sem fyrst var talið,“ segir í greininni. „Eins og staðan er núna höfum við sett fordæmi fyrir heiminn um það hvernig á ekki að takast á við faraldur.“

„Vonandi verður til bóluefni. Þangað til þurfum við að þrauka. Og ekki fara sænsku leiðina.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×