Innlent

Líklegt að fleiri skjálftar verði í dag

Sylvía Hall skrifar
Um 1.400 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðasta sólarhring.
Um 1.400 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðasta sólarhring. Veðurstofa ÍSlands

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir viðbúið að fleiri skjálftar verði í dag. Það sé eðlilegt þegar stórir skjálftar verða líkt og sá sem varð við Fagradalsfjall á tólfta tímanum í gærkvöld.

Annar skjálfti varð við Fagradalsfjall á sjötta tímanum í morgun og mældist sá 4,6. Að sögn Bjarka hafa skjálftarnir í gærkvöldi og í nótt fundist víða á suðvesturhorninu og bárust tilkynningar meðal annars frá Vík í Mýrdal.

„Þetta er ekkert að hætta. Síðasta sólarhring hafa mælst 1.400 skjálftar og helmingurinn eftir miðnætti,“ segir Bjarki í samtali við fréttastofu en á meðan símtalinu stóð varð annar skjálfti.

„Þetta heldur áfram. Þegar koma svona stórir skjálftar verður fjöldi eftirskjálfta. Það má búast við skjálftum áfram í dag frá 3 að stærð upp í 4.“

Hann segir jarðskjálftana vera hluta af þeirri hrinu sem hefur verið við Grindavík og á Reykjanesskaga síðan í byrjun árs. Virknin hafi verið mismikil en í heild hafi orðið margir skjálftar á svæðinu. Þó séu engin merki um gosóróa eins og er.

„Það hefur verið þensla á þessu svæði sem veldur þessum jarðskjálftum sem við sjáum núna.“

Þrátt fyrir mikinn fjölda tilkynninga hefur engin tilkynning borist Veðurstofunni um tjón vegna skjálftanna. Margar ábendingar hafi komið í gegnum vef Veðurstofunnar, sérstaklega nærri Grindavík enda finni íbúar á því svæði mest fyrir skjálftunum.

„Þetta eru jarðskjálftar, sem er óþægilegt fyrir alla sem eru nálægt. Þau sem eru í Grindavík og Keflavík finna þetta miklu meira en við gerum hérna á höfuðborgarsvæðinu.“


Tengdar fréttir

Jarðskjálfti á Reykjanesi

Jarðskjálfti sem var fimm að stærð varð á Reykjanesi nú á tólfta tímanum, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×