Íslenski boltinn

Arnar: Finnst eins og KR og Stjarnan hafi þessa þrjá hluti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson var glæsilegur á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson var glæsilegur á hliðarlínunni í kvöld. vísir/bára

„Þetta var mjög góður leikur af okkar hálfu,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, eftir 6-2 stórsigur gegn ÍA í gærkvöld.

„Við stilltum upp mjög ungu liði í dag. Tveir átján ára guttar byrjuðu inn á í fyrsta skipti og stóðu sig mjög vel. Mörkin hefðu getað verið fleiri en Skagamenn voru að koma inn í þennan leik fullir sjálfstraust.“

„Við þurftum að mæta þeim af hörku frá byrjun. Mér fannst við leggja grunninn að mörkunum í síðari hálfleik með fyrri hálfleiknum. Við létum boltann ganga vel og það er erfitt að spila á móti liði sem heldur bolta jafna vel og við gerum þegar við erum á okkar degi.“

„Við þreyttum þá verulega og sex mörk. Ég var mjög óánægður með frammistöðuna í síðasta leik gegn HK en sigurinn var alltaf sætur. Það er alltaf sætt að fá þrjú stig.“

„Við þurftum að bæta við og þurftum að vera fjölbreyttari. Við þurftum meiri hreyfanleika og fleiri sendingar inn fyrir. Mér fannst það takast mjög vel.“

Nikolaj Hansen heldur áfram að gera góða hluti í liði Víkings og Arnar er ánægður með framlag þess danska.

„Hann er ofboðslega drjúgur fyrir okkur. Þann tíma sem ég hef verið hér í Víkinni, bæði sem aðstoðarþjálfari hjá Loga og í fyrra, hefur hann verið drjúgur. Hann er vanmetinn leikmaður. Hann vinnur sín návígi og tengir vel spilið okkar.“

„Ég veit ekki hversu oft hann tekur boltann niður og hefur sóknirnar okkar. Hann leysir pressuna vel og er duglegur. Hann hefur ekki verið í nægilega góðu standi eftir veturinn og COVID en hann fékk 70 mínútur síðast og 70-80 mínútur núna svo hann er að bæta formið.“

Víkingar hafa nú unnið tvo leiki í röð og næst bíður lið Gróttu. Hvernig sér Arnar framhaldið?

„Það er Grótta næst sem er að berjast fyrir lífi og dauða, eins og við. Þetta er hrikalega erfið deild og hver leikur er stríð. Til að vera nálægt titilbaráttu þarftu að vera með gæði, mómentum og smá heppni.“

„Mér finnst eins og KR og Stjarnan hafi þessa þrjá hluti núna. Við höfum gæðin en þurfum smá heppni og nýta okkur mómentið sem við erum með núna. Búnir að vinna tvo leiki í röð og við þurfum að virða það sem við höfum gert vel í þessum sigurleikjum og nýta okkur það í næsta leik,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×