Erlent

Bandarískt bóluefni tilbúið fyrir lokaprófanir

Andri Eysteinsson skrifar
Fyrstu niðurstöður skiluðu því sem vísindamenn höfðu vonast eftir.
Fyrstu niðurstöður skiluðu því sem vísindamenn höfðu vonast eftir. AP/Ted Warren

Fyrsta bóluefnið sem gerðar voru tilraunir með í Bandaríkjunum hafði þau áhrif á ónæmiskerfið sem vísindamenn höfðu vonast eftir og er bóluefnið tilbúið til lokaprófanna. Það eru því þrjú möguleg bóluefni sem eru lengst komin í þróuninni.

„Sama hvernig þú klæðir þetta, þá eru þetta góðar fregnir,“ sagði dr. Anthony Fauci í samtali við AP. Samstarfsmenn Fauci hafa unnið að þróun bóluefnisins ásamt lyfjafyrirtækinu Moderna og mun mikilvægasta skrefið í þróuninni hefjast 27. Júlí næstkomandi þegar efnið verður prófað í hópi 30.000 einstaklinga.

Vísindamenn greindu frá niðurstöðum sem fengust með prófun efnisins á 45 einstaklingum í dag og voru þær á þá leið sem vonast hafði verið eftir.

„Tilraunadýrin“ mynduðu mótefni í blóði við veirunni eftir að hafa fengið bóluefnið og segir í frétt AP að myndum mótefna hafi verið svipuð og hjá þeim sem hafa læknast af veirunni.

„Þetta er mikilvægt skref sem við höfum tekið í átt að því að athuga hvort efnið veiti vernd gegn kórónuveirusmiti,“ sagði Dr. Lisa Jackson sem fór fyrir rannsókninni.

Stefnt er að því að niðurstöður á prófuninni liggi fyrir í lok árs.

Bóluefnið sem um ræðir samanstendur af tveimur sprautum og greindust engar hliðarverkanir í prófuninni. Einhverjir fundu fyrir einkennum flensu sem er algengt við bólusetningu.

Niðurstöðurnar sem kynntar voru í dag samanstóðu þó eingöngu af ungu fólki en niðurstöður rannsóknar á eldra fólki hafa ekki verið kynntar.

Dr. Fauci sagði að í lokaprófuninni verði meiri fjölbreytni í rannsókninni.

„Fólk telur að þetta sé kapphlaup sem muni skila einum sigurvegara. Ég held með öllum,“ sagði Fauci.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×