Erlent

Hafa engar á­hyggjur af frekari út­breiðslu í Fær­eyjum

Sylvía Hall skrifar
Frá Þórshöfn í Færeyjum
Frá Þórshöfn í Færeyjum Vísir/EPA

Bjarni á Steig, yfirlæknir og ráðgjafi hjá heilbrigðisráðuneyti Færeyja, hefur engar áhyggjur af stöðunni þar í landi eftir að fyrsta smitið í rúmlega tvo mánuði greindist við sýnatöku á landamærunum um helgina. Landlæknirinn Lars Fodgaard Møller segist einnig vera rólegur en minnir þó á að stríðið gegn veirunni sé ekki búið.

Þetta kemur fram í viðtali Kringvarpsins við Bjarna og Lars um smitið sem greindist um helgina. Um var að ræða fyrsta jákvæða sýnið í Færeyjum frá 22. apríl en viðkomandi fékk jákvæða niðurstöðu eftir skimun á flugvellinum í Vágum.

Líkt og greint var frá í færeyskum miðlum í gær er gengið út frá því að um gamalt smit sé að ræða. Niðurstöður úr mótefnamælingu ættu að liggja fyrir í dag en þangað til það er ljóst verður ekki ráðist í frekari smitrakningu. Bjarni á Steig segir ólíklegt að smitið sé nýtt, og þó að svo væri sé ólíklegt að ferðalangurinn hafi smitað aðra um borð í flugvélinni eða á flugvellinum.

Alls hafa 188 greinst með kórónuveiruna í Færeyjum frá því að faraldurinn hófst en greint var frá fyrsta smitinu þann 4. mars. Um var að ræða Þórshafnarbúa sem smitaðist að öllum líkindum í Frakklandi, en sá ákvað að fara í sýnatöku eftir að einstaklingar sem hann fundaði með í París greindust með veiruna.

Nokkuð vel hefur gengið að ná tökum á útbreiðslunni á eyjunum og er til að mynda enginn í sóttkví eins og er. Enginn liggur á sjúkrahúsi og aðeins einn er í einangrun. 16.336 sýni hafa verið tekin í Færeyjum hafa því 31,1 prósent íbúa farið í sýnatöku. Þá hafa allir náð bata sem hafa greinst með veiruna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×