Erlent

Vinkona Maxwell segir að Ghislaine muni ekkert gefa upp um Andrés

Andri Eysteinsson skrifar
Ghislaine Maxwell, bresk samverkakona Jeffrey Epstein.
Ghislaine Maxwell, bresk samverkakona Jeffrey Epstein. Getty/Jared Siskin

Andrés Bretaprins þarf engar áhyggjur að hafa af Ghislaine Maxwell hafi vinkona hennar, fjárfestirinn fyrrverandi Laura Goldman, rétt fyrir sér en hún segir að Maxwell myndi aldrei segja yfirvöldum neitt um samband prinsins við Jeffrey Epstein.

Maxwell var á dögunum handtekin í New Hamsphire í Bandaríkjunum sökuð um aðild að brotum Jeffrey Epstein sem sakaður var um að misnota og selja fjölga stúlkna mansali. Maxwell hefur alltaf neitað aðild eða þekkingu um brot Epstein.

Konurnar sem hafa sakað Epstein um brotin hafa þó sagst hafa kynnst honum í gegnum Maxwell. Ein kvennanna, Virginia Guiffre, sakar Maxwell um að hafa boðið henni, fimmtán ára gamalli, vinnu við að nudda Epstein.

Andrés Bretaprins, sem var vinur auðkýfingsins bandaríska hefur verið sakaður um aðild að brotunum en hann hefur neitað að aðstoða bandarísku alríkislögregluna við rannsókn málsins.

Í viðtali við Today á BBC Radio 4 í dag sagði Laura Goldman, vinkona Maxwell að Ghislaine „þyrfti að semja við yfirvöld“ til þess að fá vægari refsingu.

Spurð út í mál prinsins sagði Goldman að hún teldi að Maxwell myndi ekkert segja um tengsl hans við Epstein. „Hún hefur alltaf sagt mér að hún myndi aldrei nokkurn tímann segja nokkuð um hann. Henni finnst hann vera vinur sinn og hún myndi aldrei nokkurn tímann segja neitt. Hún fann fyrir því á tíunda áratugnum þegar faðir hennar dó að Andrés var til staðar fyrir hana, á margan hátt,“ sagði Goldman við BBC.

Goldman sem kynntist Maxwell á tíunda áratugnum og viðurkenndi að hafa mætt í partí hjá Epstein sagðist einnig telja að Epstein hafi stjórnað Maxwell. „Það réttlætir ekki það sem hún gerði. Ég held að hún hafi talið að ef hún hjálpaði honum þá myndi hann giftast henni. Hún trúði því að einn daginn yrði hún eiginkona hans,“ sagði Maxwell sem sagðist aldrei hafa orðið vitni að brotum Epstein gegn ungum stúlkum.


Tengdar fréttir

Sam­verka­kona Ep­stein hand­tekin af FBI

Ghislaine Maxwell, bresk samverkakona Jeffrey Epstein, auðkýfings sem sakaður var um að misnota og selja fjölda stúlkna mansali, hefur verið handtekin af Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×