Skoðun

Eru allir sveitar­stjórnar­menn að vinna?

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Í mars sl. benti bæjarráð Svf. Árborgar á að kólnun hagkerfisins með vaxandi atvinnuleysi væri ógn við tekjustofna sveitarfélaga og að grípa þyrfti til róttækra aðgerða til að verja störfin með mannaflsfrekum framkvæmdum við viðhald og nýfjárfestingar en með því fengi atvinnulífið þá innspýtingu sem nú bráðvantaði og þannig mætti verja störfin. Einnig lagði bæjarráð til að ríkið myndi tímabundið fella niður virðisaukaskatt af slíkum framkvæmdum, sem myndu þá gefa sveitarfélögum aukið svigrúm til þátttöku í slíkum aðgerðum.

Á dagskrá Alþingis liggur nú fyrir lagafrumvarp þar sem lögð er til breyting á bráðabirgðaákvæði um endurgreiðslu vegna vinnu manna á byggingarstað. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að bráðabirgðaákvæðið sé lagt til í kjölfar lagabreytinga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélög fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á byggingarstað innan tímabilsins 1. mars 2020 og til og með 31. desember 2020.

Með boðaðri lagabreytingu er að hálfu leyti komið til móts við ábendingar bæjarráðs, sem er vel, en tímabilið sem lagt er til að ákvæðið sé virkt er alltof stutt. Á það bendir einnig Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni um lagafrumvarpið ásamt því að upplýsa um að sveitarfélögin hafi mörg hver verið að flýta fyrir framkvæmdum á stórum verkum á árinu, sem verða þá komin tiltölulega skammt á veg um næstu áramót þegar endurgreiðslutímabilinu á að ljúka. Sambandið hvetur því fjármálaráðuneytið í því samhengi að hefja strax vinnu við gerð frumvarps til lengingar endurgreiðslutímabilsins út árið 2021 svo það geti verið lagt fyrir Alþingi ekki síðar en í haust. Þannig geti sveitarfélögin tekið tillit til þess að tímabilið hafi verið lengt þegar fjárhagsáætlun er tekin fyrir í sveitarstjórn og áætlanir um framkvæmdir næsta árs eru samþykktar.

Undirritaður tekur undir hvatningarorð sambandsins og hvetur sveitarstjórnarmenn um land allt til þess að gera slíkt hið sama ásamt því að koma skilaboðunum áleiðis til ráðherra og þingmanna í sínu héraði. Eru ekki allir sveitarstjórnarmenn að vinna í því?

Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg, varaformaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×