Erlent

Ekkert lát á bæklingasendingum til Norður-Kóreu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregluþjónar sjást hér fjarlægja mynd af norðurkóreskum leiðtogum sem komst ekki alla leið yfir landamærin. Undir yfirborði vatnsins eru svo skilaboð um að leiðtogarnir séu morðingjar.
Lögregluþjónar sjást hér fjarlægja mynd af norðurkóreskum leiðtogum sem komst ekki alla leið yfir landamærin. Undir yfirborði vatnsins eru svo skilaboð um að leiðtogarnir séu morðingjar. AP/Yang Ji-woong

Aðgerðasinnar í Suður-Kóreu sendu bæklinga með áróðursefni norður yfir landamærin í nótt, í trássi við tilmæli stjórnvalda. Spennan á Kóreuskaga hefur aukist mikið undanfarna daga.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa lagst gegn áróðrinum og nágrannarnir í norðri eru einfaldlega foxillir. Hafa sent hermenn að landamærunum og sprengt upp hús samvinnustofnunnar ríkjanna.

Suðurkóreska varnarmálaráðuneytið varaði Norður-Kóreumenn í dag við hvers konar aðgerðum sem myndu raska friði á skaganum.

„Herinn okkar fylgist náið með hreyfingum norðurkóreska hersins, allan sólarhringinn, og er í viðbragðsstöðu. Við getum þó ekki greint frá aðgerðum norðurkóreska hersins eins og stendur, sagði Choi Hyun-soo, upplýsingafulltrúi suðurkóreska varnarmálaráðuneytisins.

Áróðurssendingarnar eru ekki nýjar af nálinni og telja sérfræðingar í Suður-Kóreu að mögulega séu Norður-Kóreumenn að auka togstreituna vísvitandi til þess að ná betri árangri í viðræðum um kjarnorkuafvopnun gegn afnámi viðskiptaþvingana. Frost hefur verið í viðræðunum síðan í fyrra.

Lítill hópur mótmælti áróðurssendingunum í Paju, suðurkóreskri borg nærri landamærunum, í gærkvöldi.

„Ég vil segja þessum aðgerðasinnum að ég veit að það er hægt frekar hægt að senda nauðsynjar yfir landamærin. Ég vil að þeir hætti að angra íbúa við landamærin. Ef markmið þeirra er einfaldlega að hjálpa legg ég til að þeir finni aðra leið til þess,“ sagði Ahn Jae-young, íbúi í Paju, við AP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×