Innlent

Sóttu tvo eftir gas­sprengingu í tjaldi í Þórs­mörk

Atli Ísleifsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm

Tveir slösuðust eftir að gassprenging varð í tjaldi í Básum í Þórsmörk snemma í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi kom útkallið um klukkan hálf sjö í morgun. Virðist sem svo að kviknað hafi í út frá gaskúti. Hafi hann verið illa tengdur og hálfgerð gassprenging orðið með þeim afleiðingum að kviknaði í tjaldinu. Sjúkraflutningamenn hafi síðar óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að beiðni hafi borist um klukkan sjö, einmitt þegar þyrlan var á leið í flug. Hafi þyrlan því verið komin af stöð mjög skömmu eftir að útkallið barst.

Ásgeir segir að þyrlan hafi lent á Þórsmerkurvegi um klukkan 7:30 og svo verið komin til Reykjavíkur með fólkið upp úr klukkan átta. Var fólkið svo flutt á sjúkrahús.

Ekki er vitað um ástandið á hinum slösuðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×