Íslenski boltinn

Ólafur: Hef lengi vitað hvað Jónatan getur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur hugsi á svip.
Ólafur hugsi á svip. vísir/hag

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var sáttur eftir sigurinn á ÍA, bæði með niðurstöðu leiksins og frammistöðu sinna manna. 

FH skoraði tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks en mark Tryggva Hrafns Haraldssonar undir lok leiks hleypti spennu í leikinn.

„Frammistaðan var mjög góð. Leikurinn hefði samt getað farið öðruvísi undir lokin því við nýttum ekki færin okkar. Við bjuggum til góð færi og þriðja markið hefði sennilega drepið þetta,“ sagði Ólafur við Vísi eftir leik.

„Svo opnuðu þeir dyrnar aðeins og áttu möguleika á stigi. Það var óþarfi en frammistaðan var heilt yfir góð. Við lokuðum á spilið þeirra, vorum góðir í skyndisóknum og skoruðum fín mörk.“

Öfugt við síðasta tímabil reyna Skagamenn að oftar spila boltanum út úr vörninni. FH-ingar settu mikla pressu á gestina og unnu boltann oft á hættulegum stöðum.

„Ég er ánægður með pressuna hjá mínu liði. Við leyfðum þeim aðeins að spila út en reyndum svo að vinna boltann á miðsvæðinu. Það heppnaðist ágætlega,“ sagði Ólafur.

Jónatan Ingi Jónsson, sem skoraði fyrra mark FH, var besti maður vallarins í dag og hefur byrjað tímabilið af miklum krafti.

„Ég hef lengi vitað hvað Jónatan getur. Núna setti hann mark sem vantaði svolítið í fyrra. Hann þarf bara að halda þessu áfram. Hann er mjög öflugur fótboltamaður, er góður maður gegn manni og hefur skemmtilega eiginleika. Hann var ekkert slæmur í fyrra en það vantaði bara að skora og leggja upp fleiri mörk,“ sagði Ólafur að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×