Fótbolti

Alfreð og félagar áfram í efstu deild - Haaland tryggði Dortmund silfursætið

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Braut Haaland fagnar eftir að hafa komið Dortmund yfir gegn Leipzig.
Erling Braut Haaland fagnar eftir að hafa komið Dortmund yfir gegn Leipzig. VÍSIR/GETTY

Bayern München gefur ekkert eftir þrátt fyrir að hafa þegar tryggt sér þýska meistaratitilinn í fótbolta en liðið vann Freiburg 3-1 í dag. Leverkusen fór niður úr meistaradeildarsæti.

Robert Lewandowski skoraði tvö marka Bayern og er nú kominn með 33 mörk í deildinni á leiktíðinni, sjö mörkum meira en Timo Werner hjá RB Leipzig.

Leipzig tapaði stórleiknum við Dortmund á heimavelli, 2-0, þar sem Norðmaðurinn Erling Braut Haaland skoraði bæði mörkin. Haaland hefur þar með skorað 13 mörk í deildinni þrátt fyrir að hafa komið til Dortmund í janúar.

Dortmund er því öruggt um 2. sæti deildarinnar nú þegar aðeins lokaumferðin er eftir, en liðið er með 69 stig, sex stigum á undan Leipzig sem er í 3. sæti.

Borussia Mönchengladbach komst upp í 4. sæti, með 62 stig, eftir 3-1 sigur gegn Paderborn, liði Samúels Kára Friðjónssonar sem lék síðustu mínúturnar í leiknum. Mönchengladbach er stigi fyrir ofan Leverkusen sem tapaði 2-0 fyrir Herthu Berlín og fór þar með niður úr meistaradeildarsæti.

Alfreð Finnbogason kom inn á sem varamaður á 79. mínútu í 1-1 jafntefli Augsburg við Düsseldorf á útivelli. Augsburg tryggði sér þar með endanlega áframhaldandi veru í deildinni en liðið er í 15. sæti, sex stigum fyrir ofan Düsseldorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×