Erlent

Hæstiréttur bregður aftur fæti fyrir Trump, sem vill nýja dómara

Samúel Karl Ólason skrifar
Námsmenn sem búa í Bandaríkjunumn í gegnum DACA fögnuðu fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna.
Námsmenn sem búa í Bandaríkjunumn í gegnum DACA fögnuðu fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna. AP/Manuel Balce Ceneta

Hæstiréttur Bandaríkjanna skilaði í dag frá sér þeirri niðurstöðu að ákvörðun Donald Trump, forseta, um að afnema áætlun sem hefur varið fólk sem var flutt ólöglega til Bandaríkjanna sem börn fyrir brottvísun hafi verið ólögmæt. Minnst 650 þúsund ungir innflytjendur búa í Bandaríkjunum í gegnum áætlunina sem sett var á í forsetatíð Barack Obama.

Trump hefur varið miklu púðri í að reyna að afnema áætlunina og byrjaði hann árið 2017. Nú virðist málinu lokið en þó eingöngu í bili. Önnur málaferli vegna DACA standa enn yfir og Trump segist ekki hættur.

Þegar forsetinn sagði fyrst að áætlunin yrði felld niður átti það að vera á höndum þingsins að komast að niðurstöðu í málinu. Þingmenn beggja flokka vildu finna leið til að halda unga fólkinu í Bandaríkjunum. Trump vildi þó ekki samþykkja neitt slíkt án þess að verulega yrði dregið úr löglegum flutningi fólks til Bandaríkjanna og hann fengi fjárveitingu til að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Viðræðurnar gengu ekki eftir og hafa dómstólar komið í veg fyrir að Trump geti aðhafst einhliða. Ríkisstjórn hans hefur haldið því fram að DACA-áætlunin sé ólögmæt og því beri yfirvöldum að afnema hana.

Fimm dómarar komust að þessari niðurstöðu og fjórir lögðust gegn henni. John Roberts, forseti Hæstaréttar, gekk til liðs við frjálslynda dómara.

Vill nýja dómara

Donald Trump brást reiður við á Twitter. Hann sagði að skipta þyrfti út dómurunum í Hæstarétti og að ef Demókratar nái völdum muni þeir ógna réttindum íhaldssamra Bandaríkjamanna. Hann sagði einnig að ákvörðunin væri pólitísk og stakk upp á því að hún væri gegn lögum Bandaríkjanna.

Hann sagðist þó ekki vera hættur að reyna að afnema DACA.

Forsetinn sagðist einnig ætla að endurskoða stuttlista sína yfir dómara sem hægt sé að tilnefna til Hæstaréttar. Það væri mikilvægt íhaldsmönnum, með tilliti til þeirra ákvarðana sem Hæstiréttur hafi tekið að undanförnu.

Síðasta ákvörðun Hæstaréttar tryggði réttindi LGBTQ fólks gagnvart því að vera rekin úr starfi vegna kynhneigðar þeirra eða kynvitundar.

Barack Obama tísti einnig um ákvörðun Hæstaréttar og sagðist hann fagna með þeim ungu innflytjendum sem treysti á DACA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×