Umfjöllun og viðtöl: Sel­foss - Breiða­blik 0-2 | Blikasigur í kaflaskiptum leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir og Bergrós Ásgeirsdóttir í baráttunni í leik liðanna á síðustu leiktíð.
Alexandra Jóhannsdóttir og Bergrós Ásgeirsdóttir í baráttunni í leik liðanna á síðustu leiktíð. vísir/bára

Breiðablik gerði góða ferð yfir heiðina í kvöld þegar að þær lögðu stelpurnar frá Selfossi með tveimur mörkum gegn engu í frekar bragðdaufum stórleik umferðarinnar. Það voru þær Agla María Albertsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir sem skoruðu mörkin fyrir Blika.

Breiðablik byrjuðu leikinn með látum og voru búnar að skora eftir einungis tæplega þriggja mínútna leik, en þá kom langt innkast og boltinn skoppaði manna á milli í teignum áður en Agla María var fyrst til að átta sig og kom boltanum í netið.

Breiðablik var með völdin næstu mínútur en svo tóku Selfyssingar við og voru sterkari aðilinn út hálfleikinn. Þær fengu tvö til þrjú mjög ákjósanleg færi en náðu þó ekki að skora. Fyrri hálfleikurinn var að öðru leiti nokkuð tíðindalítill.

Seinni hálfleikurinn var svo svipaður og sá fyrri, liðin skiptust á að vera með boltann og sækja, án þess þó að skapa sér mörg hættuleg færi. Bæði lið fengu nokkur hálffæri sem þau náðu ekki að nýta sér og staðan því enn 0-1.

Það var ekki fyrr en á 83.mínútu sem að seinna mark leiksins kom og það mark var nánast eins og endursýning af því fyrra, langt innkast og boltinn laus í teignum en í þetta skipti var það Alexandra Jóhannsdóttir sem var fyrst á boltann og tryggði Blikum stigin þrjú.

Af hverju vann Breiðablik?

Ástæðan fyrir því að Breiðablik er nú að leiðinni yfir Hellisheiðina með þrjú stig í búningatöskunni er einfaldlega sú að þær nýttu þau færi sem þær fengu. Stelpurnar frá Selfossi voru ekki nógu grimmar fyrir framan markið, en Blikastelpur náðu að nýta sér það sem að þær sköpuðu.

Hverjar stóðu upp úr?

Karólína Lea og Agla María voru líklega bestu leikmenn vallarins í kvöld í frekar tíðindalitlum leik. Karólína var mjög sýnileg á boltanum og skapaðist oft hætta í kringum hana. Katla María skoraði fyrra markið og líklega er stoðsendingin skráð á hana í seinna markinu. Í liði Selfoss átti Clara Sigurðardóttir fínan leik.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að skapa sér alvöru færi stærstan hluta leiksins. Leikurinn var eins og áður sagði frekar tíðindalítill og það sem skilur liðin að í kvöld er nýting færa. Selfossstelpurnar sköpuðu sér kannski tvö góð færi, en svo var mikið um hálffæri sem enduðu með máttlausu skoti.

Hvað gerist næst?

Selfoss, sem ætlaði sér stóra hluti í sumar eru enn stigalausar og þær fara í Kaplakrikann að heimsækja nýliða FH. Ætli Selfoss sér að vera með í toppbaráttu í sumar, þá er það leikur sem að þær verða að vinna.

Breiðablik fær KR í heimsókn á þriðjudaginn og þar ætla þær sér líklega að halda áfram á sömu braut og setja tóninn fyrir komandi sumar með níu stigum af níu mögulegum úr fyrstu þrem leikjunum.

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfossvísir

Alfreð: Við þurfum bara að vera aðeins graðari

„Mér fannst við lélegar fyrstu þrjár mínúturnar í fyrr hálfleik, lendum 1-0 undir, en stjórnum svo fyrri hálfleiknum og nánast öllum leiknum, en við töpuðum,“ sagði Alfreð Elías, þjálfari Selfoss eftir tapið í kvöld.

Alfreð var ekki að flækja hlutina þegar hann var spurður hvort að honum þætti tapið óverðskuldað: „Það skiptir ekki máli, við töpuðum.“ Hann bætti svo við að honum hefði ekki þótt stelpurnar skapa nóg. „Við verðum bara að skapa meira fyrir framan markið, það vantaði svolítið uppá það hjá okkur, en ég get ekkert sett út á vinnuframlag leikmanna, þær lögðu sig allar 100% fram en núll stig.“

En hvað finnst Alfreð að þurfi að bæta?

„Stigasöfnun, alveg klárlega, það segir sig sjálft. Við þurfum að fá fleiri skot á mark og við þurfum að gera betur í föstum leikatriðum, þetta er eitthvað sem að við eigum að gera betur, við erum að fá möguleika til þess en við erum ekki að nýta þá. Við viljum frekar spila bara í gegnum markið í staðin fyrir að láta reyna á markmanninn.“

Alfreð talaði svo aðeins meira um færanýtingu Selfossliðsins. „Við þurfum bara að vera aðeins graðari og negla þessu inn, við fáum nokkra skallasénsa og nokkur færi, Tiffany fær allavega tvö eða þrjú, Dagný nokkur, en þetta er boltinn. Það skiptir ekki máli hvernig þú spilar, þú verður að skora mörkin.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Blika.vísir/eyþór

Þorsteinn: Við gerðum þetta bara vel í kvöld

„Ég er mjög sáttur, það er frábært að koma hérna og vinna. Þetta var erfiður leikur en mér fannst við gera vel varnarlega og þær fá varla færi í leiknum þannig að ég er bara sáttur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Blika, eftir leikinn í kvöld.

Þorsteinn hefði ekki áhyggjur af því að Selfoss myndi taka yfir í frekar kaflaskiptum leik. „Þegar þú ert að spila á móti góðum liðum þá þarftu bara að gera þér grein fyrir að það getur legið svolítið á þér. Þá er þetta bara spurning um að halda skipulagi og vera agaður og þolinmóður og vinna þig út úr því, mér fannst við gera það vel í dag. Þó að það hafi legið aðeins á okkur í seinni hálfleik þá vori þær ekkert að opna okkur, “ sagði Þorsteinn og bætti við: „Við gerðum þetta bara vel í kvöld“

„Við stefnum auðvitað á að vinna næsta leik en við ætlum að njóta þess í dag að hafa unnið og hafa komið hérna að spila á móti góðu Selfossliði og unnið þær. Svo þurfum við bara að fara að undirbúa okkur undir hörkuleik á móti KR næst.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira