Íslenski boltinn

Hilmar Árni: Mjög gaman að spila aftur alvöru leiki

Ísak Hallmundarson skrifar
Hilmar Árni í baráttunni við Sam Hewson í kvöld.
Hilmar Árni í baráttunni við Sam Hewson í kvöld. vísir/hag

Stjarnan vann dramatískan sigur á Fylki í Pepsi Max deild karla í kvöld, lokatölur 2-1 í Garðabænum þar sem Stjörnumenn tryggðu sigurinn í blálokin.

„Þrautseigjan skilaði þessum sigri. Við gáfumst ekki upp,“ sagði Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir sigur liðsins gegn Fylki.

„Við byrjuðum kannski fyrstu mínúturnar ekki nægilega vel en við náðum að laga það á vellinum í fyrri hálfleik. Það var svo margt jákvætt hjá okkur í fyrri hálfleik þrátt fyrir þessa slysabyrjun. Við ræddum bara aðallega í hálfleik að halda áfram og bara klára þá.“

Hilmar segir aðspurður að stemmningin hafi verið góð í hópnum undanfarið. 

„Bara mjög góð. Ég er mjög sáttur að vera byrjaður aftur að spila, hugsa að allir séu það, mjög gaman að spila aftur alvöru leiki.“

„Við teljum okkur vera með það gott lið að geta sett atlögu að titlinum og það hefur verið markmiðið síðan ég kom inn í þennan klúbb, þannig við stefnum á það,“ sagði Hilmar að lokum þegar hann var spurður út í væntingar fyrir sumarið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×