Erlent

Martin verður næsti for­sætis­ráð­herra Ír­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 59 ára Micheál Martin hefur gegnt embætti formanns Fianna Fáil frá árinu 2011.
Hinn 59 ára Micheál Martin hefur gegnt embætti formanns Fianna Fáil frá árinu 2011. Getty

Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil, verður næsti forsætisráðherra Írlands. Írskir fjölmiðlar greina frá því að fulltrúar Fianna Fáil, Fine Gael og Græningja hafi náð samkomulagi um myndun nýrrar stjórnar þar sem Martin muni gegna forsætisráðherraembættinu til að byrja með.

Martin mun taka við embættinu af Leo Varadkar, leiðtoga Fine Gael, en samkvæmt samkomulaginu mun Varadkar aftur setjast í stól forsætisráðherra í desember 2022. Varadkar hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2017.

Niðurstöður þingkosninganna 8. febrúar síðastliðinn leiddi til mikillar óvissu í írskum stjórnmálum, en flokkarnir Fine Gael, Fianna Fáil og Sinn Féin náðu allir um 20 prósent fylgi. Eftir rúmlega mánaðarlangar viðræður hafa Fine Gael, Fianna Fáil og Græningjar hins vear nú náð samkomulagi.

Reynslubolti í stjórnmálum

Hinn 59 ára Micheál Martin hefur gegnt embætti formanns Fianna Fáil frá árinu 2011. Hann var utanríkisráðherra Íslands á árunum 2008 til 2011 og hafði þar áður gengt embætti viðskiptaráðherra, heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra. Hann hefur átt sæti á þingi fyrir Cork frá árinu 1989.

Að sögn Irish Times hafa Græningjar náð því í gegn að ný stjórn leggi mikið fjármagn í almenningssamgöngur og að bæta aðstæður hjólreiðafólks. Sömuleiðis að skattar á losun koldíoxíðs verði hækkaðir og að ráðist verði í gerð nýrra vindmyllugarða á hafi úti. Þá skuli einnig ráðast í rannsóknir á fýsileika háhraðalesta milli stærstu borga eyjarinnar.

Þá hafi Fianna Fáil náð því í gegn að útgjöld til heilbrigðismála skuli aukin og að ráðist verði í byggingu um 50 þúsund nýrra félagslegra íbúða. Fine Gael náði því svo í gegn að auka sveigjanleika þegar kemur að rekstri leikskóla, svo eitthvað sé nefnt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×