Íslenski boltinn

Okkur ber skylda til að aðstoða hann í að komast aftur í fótboltann

Sindri Sverrisson skrifar
Það er talsvert um liðið síðan að Kristján Gauti spilaði síðast með FH.
Það er talsvert um liðið síðan að Kristján Gauti spilaði síðast með FH. Vísir/Daníel

„Það er frábært að hann skuli vera búinn að fá hungrið í að spila fótbolta aftur,“ segir Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, um sinn nýjasta lærisvein, Kristján Gauta Emilsson, sem óvænt hefur tekið fram skóna eftir fjögurra ára hlé.

Kristján Gauti var í dag kynntur sem nýr leikmaður FH en hann er uppalinn hjá félaginu og lék með því síðast sumarið 2014 þegar hann skoraði fimm mörk í níu leikjum. Hann var leikmaður NEC Nijmegen í Hollandi árin 2014-2016 en lagði svo skóna á hilluna. Kristján Gauti lék með unglingaliði Liverpool frá 2009-2012, um leið og Raheem Sterling og fleiri góðir, og á að baki 26 leiki og átta mörk fyrir yngri landslið Íslands.

„Óumdeilanlega var hann gríðarlega efnilegur og góður þegar hann var að spila með FH síðast. Hann fór svo til Hollands og hefur svo ekki verið að spila hérna,“ segir Ólafur í viðtali við íþróttafréttamanninn Guðmund Hilmarsson á Facebook-síðu FH-inga.

„Okkur ber skylda til þess að sjá hvort við getum aðstoðað hann í að komast inn í fótboltann aftur og spila, og þar af leiðandi aðstoði svo hann okkur í að vera með gott lið. Það mun taka tíma. Hann verður að fá sinn tíma til að komst í fótboltastand. Hann er í fínu líkamlegu standi en fær að æfa með okkur hérna og við setjum upp prógramm fyrir hann svo að við getum byggt hann upp og vonandi nýtt krafta hans í sumar,“ segir Ólafur, en viðtalið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×