Fótbolti

Spænski boltinn hefst á Steikarpönnnuslagnum í Sevilla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er mikil eftirvænting í Sevilla borg fyrir nágrannaslag Sevilla og Real Betis eins og sést meðal annars á þessari mynd þar sem treyjur allra liðanna í deildinni hanga yfir þröngri götu í miðbænum.
Það er mikil eftirvænting í Sevilla borg fyrir nágrannaslag Sevilla og Real Betis eins og sést meðal annars á þessari mynd þar sem treyjur allra liðanna í deildinni hanga yfir þröngri götu í miðbænum. Getty/Eduardo Briones

Spænski fótboltinn fer aftur af stað í kvöld þegar nágrannarnir frá Sevilla, Sevilla og Real Betis, mætast í miklum derby slag.

Leikir Sevilla og Real Betis er stór viðburður á Spáni og því kannski engin tilviljun að Spánverjar setja fótboltann aftur af stað með stóra slagnum eða „El Gran Derbi“ eins og hann er kallaður á Spáni.

Það er mikil ástríða fyrir fótboltanum í Sevilla borg og borgin skiptist nánast í tvennt þegar kemur að stuðningsmönnum liðanna tveggja.

Leikurinn í kvöld fer fram á heimavelli Sevilla liðsins sem heitir Estadio Ramón Sánchez Pizjuán. Þar hefur heldur betur verið fjörið í síðustu tveimur leikjum liðanna.

Sevilla vann 3-2 sigur í leiknum í fyrra en árið á undan fagnaði Real Betis 5-3 sigri í ótrúlegum leik. Við erum því að tala um þrettán mörk í síðustu tveimur leikjum liðanna á Estadio Ramón Sánchez Pizjuán.

Sevilla liðið vann fyrri leik liðanna á þessu tímabili 2-1 og er líka níu sætum ofar í töflunni. Hollendingurinn Luuk de Jong skoraði sigurmarkið eftir að Real Betis hafði jafnaði í 1-1 en þetta var fyrsti derby leikur Luuk de Jong síðan að hann kom til Sevilla liðsins síðasta sumar.

Colin Millar skrifaði bók um derby slag Sevilla og Real Betis og skírði hana „The Frying Pan of Spain: Sevilla v Real Betis: Spain's Hottest Football Rivalry“ eða „Steikarpannan á Spáni: Sevilla á móti Real Betis. Heitustu erkifjendurnir í spænska fótboltanum“

Hér fyrir neðan má sjá hann ræða þennan nágrannaslag í tilefni af útgáfu bókarinnar.

Leikur Sevilla og Real Betis hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×