Fótbolti

Lewandowski sló metið sitt og kom Bayern í úrslit

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski gerði gæfumuninn í kvöld eins og svo oft áður.
Robert Lewandowski gerði gæfumuninn í kvöld eins og svo oft áður. VÍSIR/GETTY

Robert Lewandowski skoraði sigurmarkið þegar Bayern München sló Eintracht Frankfurt út í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld, með 2-1 sigri.

Ivan Perisic kom Bayern yfir snemma leiks eftir sendingu frá Thomas Müller, en Danny da Costa jafnaði metin fyrir gestina, sem léku í sérstökum „Black Lives Matter“-treyjum, á 69. mínútu. Sex mínútum síðar skoraði Lewandowski og það dugði Bayern til sigurs. Myndbandsdómgæslu þurfti til að dæma markið gilt en það var upphaflega dæmt af vegna gruns um rangstöðu.

Lewandowski hefur nú skorað alls 45 mörk á leiktíðinni, ef mörk í öllum keppnum eru talin, og hefur þessi 31 árs gamli Pólverji aldrei skorað fleiri á einni leiktíð. Hann á nú möguleika á að verða bikarmeistari í Þýskalandi í fjórða sinn, eftir einn titil með Dortmund og tvo með Bayern en liðið er ríkjandi bikarmeistari.

Bayern München og Bayer Leverkusen mætast í bikarúrslitaleiknum föstudagskvöldið 3. júlí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×