Fótbolti

Við fáum ekki Íslendingaslag í þýsku bikarúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen stóð sig vel og var nálægt því að jafna metin. Hún spilaði vinstri bakvörð í leiknum.
Sandra María Jessen stóð sig vel og var nálægt því að jafna metin. Hún spilaði vinstri bakvörð í leiknum. Getty/TF-Images

Sandra María Jessen og félögum í Bayer Leverkusen tókst ekki að tryggja sér sæti í bikarúrslitaleiknum í dag þegar liðið tapaði undanúrslitaleiknum sínum á móti Essen.

Essen vann leikinn 3-1 en spilað var í Köln. Essen er fjórum sætum og fimmtán stigum ofar í töflunni og var því sigurstranglegra fyrir leikinn.

SGS Essen tryggði sér þar með sæti í bikarúrslitaleiknum á móti Wolfsburg og við fáum ekki Íslendingaslag að þessu sinni.

Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar í Wolfsburg hafði áður unnið sinn undanúrslitaleik 5-0 en þær geta unnið bikarinn sjötta árið í röð. Sara Björk hefur verið með í síðustu þremur.

Sandra María Jessen spilaði í vinstri bakvarðarstöðunni hjá Bayer Leverkusen liðinu í leiknum í dag og stóð sig vel. Sandra María var nálægt því að skora á 65. mínútu en skaut þá yfir úr teignum eftir hornspyrnu. Staðan var þá 2-1 og hefði hún getað jafnað í 2-2.

Fyrri hálfleikurinn var Bayer Leverkusen erfiður því Essen komst í 1-0 eftir aðeins þrjár mínútur og skoraði svo annað mark rétt fyrir hálfleik.

Bayer Leverkusen fékk vítaspyrnu á 57. mínútu og Merle Barth minnkaði muninn með að skora af öryggi úr henni. Vítið var dæmt á hendi varnarmanns Essen liðsins.

Essen skoraði síðan þriðja markið í uppbótatíma en áður hafði Bayer Leverkusen náð að skapa sér nokkur fín færi til að jafna metin.

Bæði lið fór á hnén fyrir leikinn til stuðnings réttindabaráttu svartra, „Black Lives Matter“ og hér fyrir ofan má sjá Sandra María Jessen (númer 22) á mynd af Twitter-síðu Bayer Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×