Erlent

Auka vernd beltisdýra í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Beltisdýr eru eftirsótt víða í Asíu.
Beltisdýr eru eftirsótt víða í Asíu. Getty/AFRIANTO SILALAHI

Yfirvöld í Kína hafa fjarlægt beltisdýr af opinberum lista yfir dýr sem nýta má við hefðbundnar lækningar. Þar að auki voru dýrin verið færð í verndarflokk í síðustu viku. Ólöglegar veiðar á beltisdýrum hafa sett allar átta tegundir beltisdýra í Kína og víðar í Asíu í útrýmingarhættu. Kjöt þeirra þykir sérstaklega bragðgott og hreisturplötur þeirra eru notaðar í hefðbundnar lækningar.

Í samtali við BBC segja dýraverndarsinnar að um mikil tímamót sé að ræða og þessar aðgerðir gætu bjargað beltisdýrunum frá útrýmingarhættu. Þau vonast þó til þess að gripið verði til sambærilegra aðgerða varðandi önnur dýr.

Vilt dýr eru víða veidd í Kína og er þeim haldið lifandi í búrum á mörkuðum þar sem þau eru seld til manneldis. Yfirvöld landsins bönnuðu slíkar venjur í kjölfar þess að nýja kórónuveiran stakk upp kollinum í Wuhanborg í Kína.

Talið er mögulegt að veiran hafi borist í menn úr beltisdýrum eða leðurblökum sem haldið var í mörkuðum eins og nefndir eru hér að ofan. Málið er til rannsóknar en engar niðurstöður liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×