Erlent

Telja morðvopnið í máli Palme fundið

Andri Eysteinsson skrifar
Olof Palme var 59 ára gamall þegar hann var skotinn til bana árið 1986. Hann gegndi þá embætti forsætisráðherra í annað sinn.
Olof Palme var 59 ára gamall þegar hann var skotinn til bana árið 1986. Hann gegndi þá embætti forsætisráðherra í annað sinn. Vísir/EPA

Talið er að skotvopnið sem notað var til þess að myrða Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Stokkhólmi 28. febrúar 1986 sé fundið og greinir SVT frá því að yfirsaksóknari muni tilkynna það á blaðamannafundi höldnum næsta miðvikudag.

Til hefur staðið að kynna niðurstöðu rannsóknar ríkissaksóknarans í Svíþjóð á morðinu á Palme með stafrænum hætti næsta miðvikudag. Yfirsaksóknarinn, Krister Petterson og Hans Melander, sem farið hefur fyrir rannsókninni munu kynna niðurstöðurnar.

Í samtali við SVT og Aftonbladet segir ritstjórinn og rithöfundurinn Daniel Suhonen að samkvæmt heimildum sínum verði greint frá því að morðvopnið hafi fundist.

Samkvæmt fréttaflutningi Aftonbladet hefur dómsmálaráðuneytinu verið gert viðvart og segir heimildarmaður blaðsins það klárt að um sé að ræða morðvopnið.

Ríkissaksóknarinn Petterson hafði áður lofað því í fjölmiðlum að kynnt yrðum sönnunargögn í málinu á fundinum. Rannsóknarteymið mun hafa staðið fyrir rannsóknum á ýmsum skotvopnum undanfarin ár sem talið er að hafi komið úr fórum byssusafnara sem sagður er hafa verið náinn vinur Stig Engström, Skandiamannsins, sem var viðstaddur morðið á Palme.

Saksóknaraembættið og sænska ríkisstjórnin vildu ekki tjá sig um málið þegar SVT leitaði eftir viðbrögðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×