Fótbolti

Segir Ron­aldo hafa nánast grátið í búnings­klefanum eftir rifrildi við Mourin­ho

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mourinho og Ronaldo í æfingaferð Real í Bandaríkjunum sumarið 2012.
Mourinho og Ronaldo í æfingaferð Real í Bandaríkjunum sumarið 2012. vísir/getty

Jose Mourinho og Cristiano Ronaldo hnakkrifust í bikarleik er Mourinho stýrði Real Madrid en Luka Modric greinir frá þessu í nýrri bók sinni. Ronaldo var frábær undir stjórn Mourinho en þeir náðu ekki vel saman persónulega.

Mourinho stýrði Real Madrid frá 2010 til 2013 og unnu þeir spænsku úrvalsdeildina einu sinni og bikarinn einu sinni. Mourinho náði í Luka Modric árið 2012 og hann segir frá því í ævisögu sinni að Ronaldo hafi verið gráti næst í einum bikarleiknum.

„Ég var hissa á viðbrögðum Mourinho. Við vorum að vinna 2-0 í Copa del Rey og Ronaldo var ekki að elta andstæðing í innkasti. Jose brjálaðist út í Cristiano,“ sagði Modric í bókinni sinni.

„Þeir rifust lengi á vellinum og þegar við komum inn í klefann í hálfleik sá ég að Ronaldo var örvæntingarfullur og hann var nánast grátandi. Hann sagði: Ég er að gera mitt besta en hann heldur áfram að gagnrýna mig.“

„Mourinho kom inn í hálfleik og byrjaði að gagnrýna Portúgalann fyrir skyldur hans á vellinum. Þeir urðu svo heitir að liðsfélagar hans komu í veg fyrir að það yrði alvöru slagsmál á milli þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×