Íslenski boltinn

6 dagar í Pepsi Max: Atli Guðna á hælum Gumma Ben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason hefur gefið 82 stoðsendingar og skorað 65 mörk í 274 leikjum í úrvalsdeild karla.
Atli Guðnason hefur gefið 82 stoðsendingar og skorað 65 mörk í 274 leikjum í úrvalsdeild karla. Vísir/Vilhelm

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 6 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

FH-ingnum Atla Guðnasyni tókst ekki að gefa stoðsendingu í Pepsi Max deildinni í fyrrasumar en augun voru á Atla sem var farinn að nálgast Guðmund Benediktsson á toppi stoðsendingalistans.

Guðmundur Benediktsson gaf 87 stoðsendingar í deildinni á sínum tíma og er áfram fimm stoðsendingum á undan Atla.

Atli var búinn að gefa stoðsendingu á þrettán tímabilum í röð fyrir síðasta tímabil en náði ekki að leggja upp mark fyrir félaga sína í FH-liðinu í fyrra.

Nú er spurningin hvort að Atli nái að nálgast metið í sumar en eftir samtals tvær stoðsendingar á síðustu tveimur tímabilum er metið hans Gumma Ben ekki í eins mikilli hættu og síðustu sumar. Það má þó ekki afskrifa Atla sem hefur gefið fimm stoðsendingar eða fleiri á níu tímabilum í efstu deild.

Guðmundur Benediktsson er búinn að eiga metið í fjórtán ár eða síðan 11. september 2006 þegar hann komst fram úr Haraldi Ingólfssyni. Haraldur vann stoðsendingatitilinn fyrstu sex tímabilin sem stoðsendingar voru teknar saman í efstu deild karla.

Guðmundur náði mest 28 stoðsendinga forskoti á listanum en þegar hann gaf sína 87. og síðustu stoðsendingu í deildinni sumarið 2009 var Haraldur Ingólfsson enn í öðru sæti með 59.

Tryggvi Guðmundsson komst upp í annað sætið sumarið 2010 og minnkaði forskot Guðmundar á endanum í fjórtán stoðsendingar.

Atli Guðnason tók síðan annað sætið af Tryggva á 2016 tímabilinu og minnkaði forskot í fimm þegar hann gaf sína síðustu stoðsendingu til þessa í leik á móti Val 23. september 2018.

Flestar stoðsendingar í efstu deild karla:

(Stoðsendingar hafa verið teknar saman frá 1992)

  • 1. Guðmundur Benediktsson 87
  • 2. Atli Guðnason 82
  • 3. Tryggvi Guðmundsson 73
  • 3. Ólafur Páll Snorrason 73
  • 5. Óskar Örn Hauksson 64
  • 6. Guðmundur Steinarsson 61
  • 7. Haraldur Ingólfsson 59
  • 8. Scott Mckenna Ramsay 56
  • 9. Ingi Sigurðsson 53
  • 10. Einar Þór Daníelsson 45
  • 11. Kristinn Jónsson 41
  • 12. Guðjón Pétur Lýðsson 40



Fleiri fréttir

Sjá meira


×