Skoðun

Vel­líðan skóla­nem­enda

Gunnar Einarsson skrifar

Í Garðabæ er framsækið og öflugt skólastarf á öllum skólastigum þar sem hagsmunir nemenda eru ávallt í fyrirrúmi. Vellíðan barna er forsenda árangurs hvort sem það er í námi eða félagslegri tengslamyndum og mikilvægt að hlúa að andlegri heilsu nemendanna okkar alveg eins og líkamlegri.

Garðabær er nú að fara af stað með tilraunaverkefni í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Mín líðan fyrir börn á elsta stigi grunnskóla Garðabæjar sem eru að glíma við kvíða. Nemendurnir munu eiga kost á nokkrum viðtölum við sálfræðing í fjarþjónustu í gegnum netið þar sem þau fá aðstoð og leiðbeiningar. Fyrstu viðtölin fara af stað nú í lok vorannar í Sjálandsskóla en verða svo í boði í fleiri skólum Garðabæjar fram að áramótum þegar verkefnið verður tekið út og endurmetið. Með því að bjóða upp á þessa nýjung sem felst í þessu tilraunaverkefni er verið að bæta við þá mikilvægu sálfræðiþjónustu sem þegar er til staðar og veitt af sálfræðingum sem starfa hjá fræðslusviði Garðabæjar.

Við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja

Við sem störfum hjá og fyrir Garðabæ höfum það að leiðarljósi að standa vörð um vellíðan nemenda. Eitt af aðalfyrirheitum Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var að efla aðgengi að sérfræðingum innan skólanna, svo sem náms- og starfsráðgjöfum og sálfræðingum. Tilraunaverkefnið „Mín líðan“ er liður í að efna það kosningaloforð.

Fyrir tveimur árum ritaði ég grein sem bar heitið „Kvíði skólabarna varðar samfélagið allt“ og á það enn við sem þar var ritað. Aukin vanlíðan ungmenna er ekki vandamál eins heldur verðum við sem samfélag að takast á við það í sameiningu hvort sem það eru leik- og grunnskólar sveitarfélaga eða stofnanir ríkis, frístunda- og íþróttafélög, foreldrar og allir sem koma að uppeldi og umönnun barna og ungmenna. Við í Garðabæ ætlum ekki að láta okkar eftir liggja.

Höfundur er bæjarstjóri Garðabæjar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×