Handbolti

Skólinn spilaði stóra rullu í að Hrafn­hildur á­kvað að koma heim

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hrafnhildur Hanna er á leið til ÍBV.
Hrafnhildur Hanna er á leið til ÍBV. vísir/s2s

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem gekk í raðir ÍBV á dögunum segir að metnaðurinn í Eyjum hafi heillað sig og segir að Eyjar séu líkari samfélaginu á Selfossi heldur en til að mynda höfuðborgarsvæðið.

Hrafnhildur Hanna er ein þeirra fjölmörgu atvinnukvenna sem eru á heimleið fyrir komandi leiktíð í Olís-deild kvenna en hún kemur frá Frakklandi þar sem hún á lék á síðustu leiktíð. Hún er spennt fyrir komandi leiktíð en af hverju er hún á heimleið?

„Eftir eitt ár í Frakklandi ákvað ég að koma heim næsta vetur og klára námið sem ég er í háskólanum hérna heima. Ég tók góðan tíma í að hugsa þetta og tók ákvörðunina í rólegheitum. Það stærsta sem ég þurfti að ákveða var að hvort að ég ætlaði að vera áfram úti og setja skólann á pásu eða koma heim og klára þetta litla sem ég á eftir í náminu mínu,“ sagði Hrafnhildur Hanna við Magnús Hlyn. En af hverju ÍBV?

„Mér finnst þetta spennandi staður og flott umgjörð sem er þarna. Spennandi hópur og ég hef tengingar þangað í gegnum foreldra mína. Þau eru bæði fædd þarna og ég á fullt af ættingjum á eyjunni svo mér finnst þetta mjög spennandi,“ sagði Hrafnhildur en hvernig er fyrir Selfyssing að fara til Eyja?

„Það er bara gaman. Þetta er kannski líkara samfélaginu á Selfossi heldur en á höfuðborgarsvæðinu til dæmis. Flott samfélag og það standa allir saman.“

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Hrafnhildur til ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×