Skoðun

Græna planið, neyðar­planið eða hall­æris­planið?

Vigdís Hauksdóttir skrifar

Græna planið, eða neyðarplanið eða hallærisplanið eða hvað við eigum að kalla það.

Vá - þvílík froða og samansafn af orðskrúði pakkað inn í grænar umbúðir með umhverfisvænni slaufu. Upptalning á tæplega 100 atriðum sem gæti hugsanlega fallið undir eitthvað grænt. Ég hef aldrei séð jafn hallærislega greinargerð með nokkurri tillögu síðan ég settist í borgarstjórn. Greinilegt er að meirihlutinn er kominn í mikil vandræði á öllum sviðum borgarinnar fjárhagslega og faglega. Þá er gripið í svona hókus, pókus trix, sjónhverfingar og boðað til blaðamannafundar. Svo mikið lá á að fundurinn var haldinn klukkutíma fyrir borgarstjórnarfund þar sem samþykkja átti tillöguna.

Ekki verður betur séð en að „Græna planið“ sé fullkomið brot á samgöngusáttmálanum og því algjört hallærisplan, því í greinargerð með planinu segir að borgarlínan, hjólandi og gangandi eru sett í algjöran forgang í samgöngumálum.

Enn á ný sannar borgarstjóri að undirskrift hans í samningum við ríkið er ekki pappírsins virði. Talið er upp í áherslupunktum í græna hallærisplaninu: borgarlína, hjólreiðanet höfuðborgarsvæðisins, stokkar, gönguborgin Reykjavík, hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar, rafvæðing hafna, rafvæðing almenningssamgagna, samgöngumiðstöð Reykjavíkur og tilraunaverkefni með bátastrætó, já þið lásuð rétt bátastrætó. Ekki er eitt orð um Sundabraut. Á meðan er í fyrsta forgang í samgöngusáttmálanum umferðarstýring og segir þar að ráðist verði strax í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu, Sæbrautarstokkur sem er ein forsenda hugmynda um Sundabraut, Miklubrautarstokkur, Arnarnesvegur – Rjúpnavegur um Breiðholtsbraut, gatnamót við Bústaðaveg, og framkvæmdir við Miklubraut sem framhald af framkvæmdur austur yfir gatnamót á Kringlumýrarbraut.

Hér er um algjöran misskilning hjá meirihlutanum að ræða – með vilja eða ekki. Allt á að fjármagna með nýuppfundnu neyðarplani sem kallast græn skuldabréf sem s.s. er ný skuldsetningaaðferð borgarsjóðs sem skuldar nú þegar yfir 100 milljarða og samstæðunnar sem skuldar um 340 milljarða. Græna neyðarplanið gengur út á að búa til græna skuldavafninga í gegnum nýuppfundin græn skuldabréf. Það var þetta plan sem var samþykkt af meirihlutanum á borgarstjórnarfundi þann 2. júní sl. ykkur öllum til upplýsingar.

Höfundur er borgarfulltrúi Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×