Íslenski boltinn

Ættu að vera Ótta(r)slegnir að gefa Víkingum aukaspyrnu fyrir utan vítateig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson er með frábæran vinstri fót.
Óttar Magnús Karlsson er með frábæran vinstri fót. vísir/bára

Óttar Magnús Karlsson skoraði gull af marki þegar Víkingur sigraði Stjörnuna, 4-3, í æfingaleik í Víkinni í gær. Hann skoraði tvö mörk fyrir bikarmeistarana í leiknum sem og Viktor Örlygur Andrason.

Markið stórglæsilega skoraði Óttar með skoti beint úr aukaspyrnu sem fór í slána og inn, óverjandi fyrir Harald Björnsson í marki Stjörnunnar. Markið má sjá hér fyrir neðan.

Þetta er allavega þriðja markið sem Óttar skorar með skoti beint úr aukaspyrnu á svipuðum stað síðan hann kom aftur til Víkings um mitt síðasta sumar. Og öll þrjú aukaspyrnumörkin hafa verið á sama mark, því sem er nær félagsheimilinu.

Óttar skoraði tvö mörk beint úr aukaspyrnum á fimm dögum í ágúst í fyrra. Bæði komu þau í 3-1 sigrum Víkings.

Þann 11. ágúst skoraði Óttar beint úr aukaspyrnu þegar Víkingur vann ÍBV í 16. umferð Pepsi Max-deildarinnar. Hann endurtók svo leikinn í sigri á Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins 15. ágúst. Óttar skoraði síðan markið sem tryggði Víkingum bikarmeistaratitilinn gegn FH 14. september.

Óttar og félagar í Víkingi mæta KR í Meistarakeppni KSÍ á Meistaravöllum á sunnudaginn. Fyrsti leikur Víkinga í Pepsi Max-deildinni er gegn Fjölnismönnum sunnudaginn 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×