Handbolti

Kári um æxlið í bakinu á sér: „Númer eitt, tvö og þrjú að halda geðheilsunni“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kári Kristján ræddi við Henry Birgi í gær um æxlið sem er í bakinu á honum.
Kári Kristján ræddi við Henry Birgi í gær um æxlið sem er í bakinu á honum. Mynd/Stöð 2 Sport

Kári Kristján Kristjánsson hefur um árabil verið einn af bestu leikmönnum íslenska landsliðsins í handbolta. Hann hefur verið með æxli í baki undanfarin ár og heldur því niðri með geislameðferð.

Kári Kristján var í spjalli hjá Henry Birgi Gunnarssyni í þættinum Sportið í dag sem sýndur var í gær. Þáttastjórnendurnir Henry Birgir og Kjartan Atli Kjartansson, sem er öllu jafna með Henry, hafa fengið Kára Kristján til að segja ýmsar skemmtilegar sögur í þáttunum. 

Þá oftast úr bílskúrnum heima hjá sér en nú var hann kominn í settið. Spjall þeirra félaga má sjá í spilaranum hér að neðan.

Sagan í gær verður þó seint talin skemmtileg. Fyrir nokkrum árum lét hann fjarlægja stórt æxli úr baki sínu en það tók sig upp aftur árið 2014. Hefur hann haldið því í skefjum með geislameðferð síðan þá.

„Læknateymi hérna á Íslandi í samvinnu við læknateymi í Skandinavíu meta svona mein þannig að þeir vilji ekki skera þetta þannig ég fer í geislameðferð sem gaf ágætis raun og ég held að það sé pínu gæfuspor í þessu öllu saman að hafa tekið þessa meðferð,“ sagði Kári við Henry í gær.

„Þetta er alltaf eintómt maus, þannig. Við keyrum okkur áfram á góða stöffinu og ég er í góðu sambandi við minn lækni, fer í mínar myndatökur og mitt eftirlit en um tíma var þetta ekkert spes. Í dag er ég bara ennþá með æxli í bakinu sem er undir eftirliti og við þurfum bara að reyna halda sjó með því og númer eitt, tvö og þrjú er að reyna halda þessari blessuðu geðheilsu því ef hún fer þá er helvíti erfitt að berjast,“ sagði Kári að lokum.

Klippa: Kári Kristján Kristjánsson glímir við æxli í baki

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×