Innlent

Stofna nýtt rekstrar­fé­lag um Reykja­lund

Atli Ísleifsson skrifar
Fjallað var mikið um málefni Reykjalundar í haust og vetur, sem einkenndust af ólgu og ósætti milli starfsfólks stofnunarinnar og stjórnar SÍBS.
Fjallað var mikið um málefni Reykjalundar í haust og vetur, sem einkenndust af ólgu og ósætti milli starfsfólks stofnunarinnar og stjórnar SÍBS. Vísir/Vilhelm

Sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi hefur verið stofnað og er því ætlað að vera óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem verður óháð stjórn SÍBS.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi, en líkt og áður hefur verið tilkynnt hefur Pétur Magnússon verið ráðinn forstjóri og kemur hann til starfa 1. júní næstkomandi.

Mikill styr hefur staðið um rekstur Reykjalundar síðustu misserin, en heilbrigðisráðherra tilnefndi í nóvember síðastliðinn starfsstjórn yfir stofnuninni til að stýra henni á meðan unnið væri að endurskoðun stjórnskipulags stofnunarinnar sem var samstarfsverkefni starfsstjórnar og SÍBS, eiganda Reykjalundar.

Starfsfólki tilkynnt í morgun um breytingarnar

Starfsfólki Reykjalundar var í morgun kynnt framtíðarfyrirkomulag stjórnunar endurhæfingarmiðstöðvarinnar. Var þar kynnt nýtt skipurit sem tekur gildi 1. júní  og hafi verið unnið var í samráði við starfsfólk.

Haft er eftir Stefáni Yngvasyni, formanni starfsstjórnar, að hann sé er ánægður með ávinning af starfi starfsstjórnarinnar og að hann sé sannfærður um að tekist hafi að finna mjög farsæla lausn.

Í tilkynningunni segir að hlutverk SÍBS til framtíðar sem eiganda Reykjalundar verði fyrst og fremst að fjármagna uppbyggingu á staðnum. Daglegur rekstur endurhæfingarþjónustunnar muni áfram byggjast á samningi við Sjúkratryggingar Íslands, þar sem tryggt verði að launakjör, lífeyrisréttindi og önnur réttindi og skyldur starfsmanna Reykjalundar haldist óbreytt hjá nýja félaginu.

Gunnar Ármannsson, Anna Stefánsdóttir, Pétur Magnússon, Haraldur Sverrisson og Arna Harðardóttir.Reykjalundur

Stjórn hins nýja hlutafélags skipa

  • Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur, formaður 
  • Gunnar Ármannsson, lögmaður, meðstjórnandi
  • Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, meðstjórnandi 
  • Arna Harðardóttir, sjúkraþjálfari, varamaður

Ósætti milli starfsfólks og stjórnar SÍBS

Mikið var fjallað um málefni Reykjalundar í haust og vetur, sem einkenndust af ólgu og ósætti milli starfsfólks stofnunarinnar og stjórnar SÍBS. Málið komst fyrst í fjölmiðla eftir að Birgi Gunnarssyni, sem þá hafði verið forstjóri Reykjalundar í tólf ár, var óvænt sagt upp störfum af stjórn SÍBS. Þá var Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, einnig sagt skyndilega upp.

Í kjölfarið var Herdís Gunnarsdóttir ráðin forstjóri Reykjalundar og Ólafur Þór Ævarsson ráðinn framkvæmdastjóri lækninga. Herdís og Ólafur sögðu þó bæði störfum sínum lausum eftir skamman tíma í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×