Erlent

Neyðarpakki vegna faraldursins samþykktur á Bandaríkjaþingi

Kjartan Kjartansson skrifar
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, ræddi við fréttamenn áður en þingmenn greiddu atkvæði um neyðarpakkann í gærkvöldi.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, ræddi við fréttamenn áður en þingmenn greiddu atkvæði um neyðarpakkann í gærkvöldi. AP/J. Scott Applewhite

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti neyðarpakka vegna kórónuveiruheimsfaraldursins í nótt. Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir neyðarástandi vegna faraldursins í gær og hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið.

Frumvarp fulltrúadeildarinnar felur í sér að landsmenn geti farið í sýnatöku sér að kostnaðarlausu, vinnandi fólk fái greitt veikindaleyfi auk þess sem réttur til atvinnuleysisbóta og mataraðstoðar verður útvíkkaður, að sögn AP-fréttastofunnar. Það var samþykkt með 363 atkvæðum gegn fjörutíu. Búist er við því að öldungadeild þingsins, þar sem Repúblikanaflokkur Trump fer með meirihluta, taki frumvarpið fyrir eftir helgi.

„Ég hvet alla repúblikana og demókrata til að taka höndum saman og KJÓSA JÁ! Ég hlakka til að skrifa undir endanlegt frumvarp EINS FLJÓTT OG HÆGT ER!“ tísti Trump í gær.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir að fólk sem veikist eða þarf að fara í heimasóttkví vegna faraldursins lendi ekki í fjárhagslegu öngstræti. Það á að tryggja vinnandi fólki þriggja mánaða veikindaleyfi. Minni og miðlungsstórum fyrirtækjum verður bættur kostnaðurinn með skattaafslætti. Áður hafði Bandaríkjaþing samþykkt 8,3 milljarða dollara neyðarfjárveitingu vegna veirunnar.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi demókrata á þingi, samdi um efni frumvarpsins við Stephen Mnuchin, fjármálaráðherra, í vikunni. Þau hafa bæði boðað annan neyðarpakka vegna faraldursins sem eiga að blása lífi í efnahagslífið.

Ákvörðun Trump um að lýsa yfir neyðarástandi gerir honum kleift að ráðstafa allt að fimmtíu milljörðum dollara til alríkis- og ríkisstjórna til að bregðast við útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×