Fótbolti

„Hefði sennilega ekki spilað mínútu hjá mér miðað við hvernig hann hegðaði sér á þeim æfingum sem hann var hjá mér þennan veturinn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Kristinsson þjálfaði Guðmundur Andra Tryggvason í skamman tíma áður en hann fór til Start.
Rúnar Kristinsson þjálfaði Guðmundur Andra Tryggvason í skamman tíma áður en hann fór til Start. vísir/bára/samsett

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir að það besta sem hafi komið fyrir sóknarmanninn Guðmund Andra Tryggvason hafi verið að semja við Start í lok ársins 2017 en Rúnar var ekki ánægður með framlag Guðmundar á æfingum KR-liðsins þar á undan.

Rúnar var í viðtali hjá Hjörvari Hafliðasyni í hlaðvarpinu Dr. Football en þar ræddi Rúnar bæði um komandi tíma sem og liðna tíma hjá Íslandsmeisturunum. Þegar talið barst að ungum KR-ingum sem hafa komið í gegnum unglingastarfið bar nafn Guðmundar Andra á góma.

„Hann æfði einn vetur hjá mér. Það vantaði fullt upp á karakterinn á þeim tíma. Svo fékk hann tækifæri til að fara út og hann fór út. Ég var ekki sáttur með hans framlag á æfingum þann veturinn. Ég er bara opinskár með það,“ sagði Rúnar en hann tók við KR-liðinu á nýjan leik haustið 2017 eftir að hafa þjálfað Lilleström og Lokeren.

Síðasta sumar snéri Guðmundur Andri aftur heim, þá að láni til Víkings, og varð bikarmeistari með liðinu. Guðmundur Andri sló að margra mati í gegn á síðustu leiktíð og hans fyrrum þjálfari tók undir það.

„Hann gerði það. Hann hefði sennilega ekki spilað mínútu hjá mér miðað við hvernig hann hegðaði sér á þeim æfingum sem hann var hjá mér þennan veturinn. Ég ætla ekkert að tala illa um hann því hann er frábær fótboltamaður en hann þurfti að læra á þeim tíma og ég held að besta sem hann gerði var að fara til Start í Noregi. Það var frábært skref fyrir hann. Hann þurfti nýtt umhverfi. Hann lagði sig ekkert sérstaklega fram á þeim æfingum sem hann var hjá mér fannst mér og besta var að fara út. Hann komst út og hann hefur stigið stór skref síðan þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×