Erlent

Segja póstatkvæði brjóta á rétti kjósenda og höfða mál gegn Kaliforníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, segir mikilvægt að tryggja öryggi kjósenda í nóvember.
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, segir mikilvægt að tryggja öryggi kjósenda í nóvember. EPA/RICH PEDRONCELLI

Þrenn samtök Repúblikana, og þar á meðal Landsnefnd Repúblikanaflokksins, hafa höfðað mál gegn Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu. Tilefni málaferlanna er að hann hefur gefið út þá tilskipun að kjörseðlar verði sendir til allra skráða kjósenda í ríkinu í kosningunum í nóvember. Þá ákvörðun tók Newsom þann 8. maí og varð Kalifornía fyrsta ríkið þar sem þessi ákvörðun var tekin vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar.

Repúblikanar segja að kosningar sem fari fram með þessum hætti muni bjóða upp á kosningasvik. Donald Trump. forseti, hefur til að mynda ítrekað haldið því fram að víðtækt kosningasvindl fylgi póstatkvæðum. Meðal annars hefur hann sagt að hann hafi í raun fengið fleiri atkvæði en Hillary Clinton í kosningunum árið 2016, sé tillit tekið til kosningasvika.

Sjá einnig: Ráðgjafi Trump sagði flokkinn reiða sig á að hindra kjósendur

Hann hefur þó aldrei rökstutt þær yfirlýsingar sínar og rannsóknarnefnd sem hann setti á laggirnar og átti að staðfesta kosningasvindl var tiltölulega fljótt leyst upp án niðurstöðu.

Einn meðlimur nefndarinnar sagði eftir á að henni hafi eingöngu verið ætlað að styðja innihaldslaus orð forsetans.

Ronna McDaniel, framkvæmdastýra Landsnefndar Repúblikanaflokksins, opinberaði lögsóknina á Twitter í nótt. Þar sakaði hún Demókrata um að nýta faraldurinn til að tryggja sér völd og sagði hún að póstatkvæðin myndu grafa undan trausti íbúa Kaliforníu á kosningarnar.

Í frétt LA Times segir að í lögsókninni sjálfri sé Newsom sakaður um að reyna að hrifsa til sín völd á óskammfeilinn máta og brjóta á réttindum þeirra sem hafa raunverulegan rétt á því að kjósa.

Lögsóknin endurspeglar ummæli Trump sem hótaði nýverið að halda aftur af fjárveitingum til ríkja sem heimili póstatkvæði.

Newsom og embættismenn segja póstatkvæði nauðsynleg til að tryggja öryggi kjósenda, því faraldurinn verði að öllum líkindum enn til staðar í nóvember. Ríkisstjórinn hefur enn fremur sagt að hann sé ekki að brjóta lög.

Alex Padilla, innanríkisráðherra Kaliforníu greip einnig til Twitter í nótt vegna lögsóknarinnar og sagði það að gera kjósendum auðveldara að kjósa á tímum faraldurs væri ekki pólitískt mál. Það væri mikilvægt að tryggja rétt fólks til að kjósa og það á öruggan hátt.

Hann sagði að notast hafi verið við póstatkvæði í mörgum ríkjum um árabil og það hafi gengið vel. Padilla bætti við að lögsóknin væri eingöngu liður í áróðri Trump gegn póstatkvæðum og Kalifornía myndi ekki leyfa hagsmunaöflum að nýta faraldurinn til að koma niður á réttindum fólks til að kjósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×