Körfubolti

NBA deildin frestar öllu tímabilinu út af kórónuveirunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James, Anthony Davis og félagar þeirra í Los Angeles Lakers  eru komnir í ótímabundið frí vegna kórónuveirunnar.
LeBron James, Anthony Davis og félagar þeirra í Los Angeles Lakers  eru komnir í ótímabundið frí vegna kórónuveirunnar. Getty/Harry How

Hlutirnir gerðust hratt hjá NBA deildinni í nótt og áður en ákveðið var að spila án áhorfenda þá tóku forráðamenn NBA þá stóru ákvörðun að fresta öllum leikjum í ótakmarkaðan tíma.

NBA tók þessa ákvörðun eftir að leikmaður Utah Jazz liðsins greindist með kórónuveiruna og hún var tilkynnt rétt áður en leikur Utah Jazz og Oklahoma City Thunder átti að hefjast í nótt.

NBA sagði að leikmaður Utah Jazz, sem greindist með kórónuveiruna, hafi ekki verið á leiknum en óstaðfestar fréttir er að leikmaðurinn sé franski miðherjinn Rudy Gobert.

Samkvæmt heimildum bandarísku fjölmiðlamannanna innan raða Utah Jazz þá komust læknar fyrst af því að Rudy Gobert væri hvorki með inflúensu eða öndunarfærasýking en svo hafi þeir prófað að kanna hvort hann væri með Covid-19 og það próf var jákvætt.

„Þetta er klikkun. Þetta getur ekki verið satt. Það er eins og þetta sé sena í kvikmynd. Óraunverulegt,“ sagði Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, þegar hann fékk fréttirnar.

„Þetta snýst ekki um körfubolta eða peninga. Þetta er að stækka svo hratt og nú er maður farinn að hugsa um fjölskyldurnar. Við erum að passa upp á það að geta þetta á réttan hátt,“ sagði Cuban.

„Það er mjög alvarlegt ástand þessa stundina og ég held að deildin hafi gert það hárrétta í stöðunni,“ sagði Erik Spoelstra, þjálfari Miami Heat.

Áður en kom að frestun NBA deildarinnar hafði Golden State Warriors, fyrst liða, tilkynnt að allir heimaleikir liðsins yrðu spilaðir án áhorfenda. Ástæðan var að San Francisco hafði bannað fjöldasamkomur með meira en þúsund gesti. Ekkert kom þó að því þar sem NBA deildin steig einu risastóru skrefi lengra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×