Erlent

Trump lokar á ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna

Kolbeinn Tumi Daðason og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Trump vill koma í veg fyrir að smit berist frá Evrópu vestur um haf.
Trump vill koma í veg fyrir að smit berist frá Evrópu vestur um haf. Vísir/Getty

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt umfangsmiklar aðgerðir í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. 

Trump kynnti í kvöld ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag. Bannið nær til allra erlendra ríkisborgara sem hafa verið á Schengen-svæðinu, Íslandi þar með töldu, síðustu 14 daga. Þetta kom fram í ávarpi hans úr Hvíta húsinu í kvöld.

Bandarískum ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra verður áfram hleypt til Bandaríkjanna, rétt eins og þeim sem eru þar með fasta skráða búsetu.  Þau munu þó þurfa að undirgangast skoðun við komuna til landsins og að líkindum þurfa að sæta sóttkví í tvær vikur, eins og ferðalangar frá Kína þurfa að gera í dag.

Trump sagði að aðgerðirnar, sem hann lýsti sem hörðum en nauðsynlegum, myndu gilda um allar Evrópuþjóðir nema Bretland.  460 smit hafa greinst í Bretlandi. 1135 smit hafa greinst í Bandaríkjunum og 38 látist, þar af 24 í Washington-ríki á norðvesturströndinni. Samkomur hafa verið bannaðar í fjölmörgum sýslum í ríkinu.

Trump hvatti bandaríska þingið til þess að samþykkja tillögur um lækkun skatta til þess að lágmarka áhrif kórónuveirunnar á efnahag Bandaríkjanna. Ferðabann Trump mun hins vegar ekki hafa áhrif á vöruflutninga.

Þá stappaði Trump stálinu í Bandaríkjamenn og sagði fólk verða að standa saman á þessum tímum og leggja pólitík til hliðar.

Ávarp Trump má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×