Viðskipti innlent

Ríkiskaup leitast við að leiðrétta rangfærslur um útboð á kynningarherferð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Markaðsátakinu „Ísland – saman í sókn“ er ætlað að kynna Ísland sem ferðamannastað í kjölfar kórónuveirufaraldursins.
Markaðsátakinu „Ísland – saman í sókn“ er ætlað að kynna Ísland sem ferðamannastað í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Vísir/Villi

Ríkiskaup hafa sent frá sér tilkynningu þar sem því er haldið fram að fjölmiðlaumfjöllun um nýafstaðið útboð kynningarherferðarinnar „Ísland – saman í sókn,“ sem stjórnvöld ákváðu að ráðast í til landkynningar á Íslandi sem ferðamannastaðar á erlendum mörkuðum í kjölfar faraldurs kórónuveiru, feli í sér rangfærslur. Þær rangfærslur telji stofnunin tilefni til þess að leiðrétta.

Forsaga málsins er sú að breska auglýsingastofan M&C Saatchi var hlutskörpust í útboði á verkefninu, en íslenska auglýsingastofan Pipar/TBWA varð í öðru sæti útboðsins, en litlu munaði á einkunnum stofnananna í útboðinu. Pipar/TBWA hefur nú kært ríkiskaup vegna ákvörðunarinnar og heldur því fram að M&C Saatchi þurfi ekki að borga virðisaukaskatt á Íslandi. Það þurfi Pipar hins vegar að gera og því hafi ekki verið gætt jafnræðis í útboðinu. Þessu hefur hins vegar verið hafnað af hálfu Ríkiskaupa, sem segja að farið hafi verið fram á við alla bjóðendur að verð í útboðinu yrði gefið upp í íslenskum krónum með virðisaukaskatti.

Í tilkynningu Ríkiskaupa segir að viðmælendur fjölmiðla í dag, sem eru fulltrúar Pipars/TBWA, hafi „vegið alvarlega að heiðri dómnefndar með efasemdum um val í nefndina, heilindi hennar og skort á upplýsingum um bjóðendur fyrir matið á faglegum hluta útboðsins.“

„Eins og Ríkiskaup hafa útskýrt í fjölmiðlum og upplýst er með dæmum á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis þá er virðisaukaskattur hlutlaus og hefur ekki áhrif á verðmyndun í útboðum hvort sem hún er keypt innan- eða utanlands. Staðhæfingar um annað eru byggðar á misskilningi,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að gagnrýnt hafi verið að tilboði M&C Saatchi hafi orðið fyrir valinu, vegna frétta um meint bókhaldsbrot fyrirtækisins. Þó sé rétt að geta þess að tilboð í útboðsferlinu hafi verið valin út frá fyrir fram gefnum valforsendum og hæfnikröfum sem fram koma í útboðsgögnum og sækja stoð í íslensk lög. Þær hæfnikröfur hafi M&C Saatchi staðist.

Sjá einnig: Leiðinlegt að stærsta verk­efnið á markaðnum fari til Bret­lands í ójafnri keppni

„Ríkiskaupum ber skylda til þess að staðfesta að útilokunarástæður 68. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 eigi ekki við um fyrirtækið áður en endanlegur samningur er gerður. Lögin heimila ekki að ákvarðanir um val á bjóðendum byggi á fréttaflutningi heldur á staðreyndum og staðfestingum opinberra aðila um að bjóðandinn uppfylli hæfiskröfurnar.“

Ríkiskaup eru til húsa í Borgartúni.Vísir/Hanna

Segja vegið að heiðri ónefnds dómnefndarmanns

Þá segir að í viðtölum við fjölmiðla hafi fulltrúar Pipars/TBWA vegið að heiðri dómnefndarinnar með ásökunum um tengsl ónefnds nefndarmanns við M&C Saatchi. Það hafi verið gefið í skyn að Pipar/TBWA hafi hlotið lægri útboðseinkunn vegna þessara meintu tengsla, sem réði síðan úrslitum við endanlegt val á tilboði.

„Þessi staðhæfing er algjörlega tilhæfulaus. Þá hefur nefndur viðmælandi haldið því fram að ef dómnefndin hefði vitað af fyrrnefndri fjölmiðlaumfjöllun um meint brot M&C Saatchi hefði það haft áhrif á einkunnagjöf nefndarinnar. Hlutverk hennar var eingöngu að leggja faglegt mat á kynningar bjóðenda á grundvelli fyrirliggjandi valforsenda. Óheimilt er með öllu að víkja frá því. Slíkt hefði brotið gegn fjölmörgum meginreglum laga um opinber innkaup,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að hlutverk Ríkiskaupa sé að gæta þess að opinberir kaupendur fylgi ákvæðum laga um opinber innkaup og standist þær kröfur sem settar eru fram í útboðsgögnum hverju sinni. Markmið laga um þetta sé að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni.

„Í þessu útboði var öllum þessum markmiðum fylgt. Óánægðir bjóðendur hafa vettvang hjá kærunefnd útboðsmála til að fá úr því skorið hvort þeir hafi verið beittir ranglæti eða ekki,“ segir í lok tilkynningarinnar.

Hér má nálgast tilkynningu Ríkiskaupa í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×