Handbolti

Patrekur hefur sett upp þriggja ára áætlun til að koma Stjörnunni í hæstu hæðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrekur Jóhannesson mun þjálfa Stjörnuna á næstu leiktíð.
Patrekur Jóhannesson mun þjálfa Stjörnuna á næstu leiktíð. Mynd/Stöð 2 Sport

Patrekur Jóhannesson, nýráðinn þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í Olís deild karla í handbolta, hefur sett upp áætlun sem á að skila Stjörnunni í hæstu hæðir handboltans. Þá reiknar hann með að liðið spili heimaleiki sína í TM höllinni eða Mýrinni eins og hún er oftast kölluð.

Henry Birgir Gunnarsson ræddi við Patrek í þættinum Sportið í dag í liðinni viku. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

„Stjarnan hefur verið á bilinu sjöunda til níunda sæti undanfarin ár og þar á undan í fyrstu deild. Ég er með þriggja ára plan og í þeim liðum sem ég hef síðast verið að þjálfa hér á Íslandi þá hefur þetta endað vel eftir tvö ár en auðvitað vil ég alltaf berjast um efstu sætin. Það breytist aldrei sama hvar ég fer að þjálfa,“ sagði Patrekur er Henry spurði hann út í hvar Stjarnan myndi enda á næstu leiktíð.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta tekur tíma. Það er margt sem þarf að vera. Lykilatriði að liðið sé í toppstandi og þetta hangir allt saman. Það er verið að tala um Mýrina, Ásgarð og allt þetta. Við leysum það vandamál með því að vera með gott og áhugavert lið sem fólk vill sjá. Þá koma fleiri á völlinn. En markmið er að keppa um efsta sætið á þessum þremur árum.“

„Auðvitað viðurkenni ég það að hugmyndin var ekkert slæm að vera með keppnishús í Ásgarði og allt það en ég geri ráð fyrir því að við verðum í Mýrinni. Þú vinnur leikina ekkert í höllum, þú þarft að sýna það á gólfinu og auðvitað þarf stúkan og fleiri öryggisatriði að vera í lagi. Lykilatriði er samt að ég og leikmennirnir verðum þannig lið að fólk vill koma og horfa á okkur sama hvert húsið er,“ sagði Patrekur að lokum.

Körfuknattleikslið Stjörnunnar leikur sína heimaleiki í Ásgarði og mikil kergja myndaðist í Garðabæ síðasta vetur er handboltalið félagsins vildi einnig leika sína heimaleiki þar.

Sjá einnig: Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar vill ekki deila Ásgarði með handboltanum

Klippa: Patrekur reiknar með að spila í TM höllinni

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Patrekur vill akademíu í samstarfi við körfuna

Patrekur Jóhannesson, sem tekur við handboltaliði karla hjá Stjörnunni 1. júní, vill að farin verði sama leið í Garðabæ og á Selfossi með því að koma á fót handboltaakademíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×