Fótbolti

Klopp vill einkafund með Werner til að kynnast honum betur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Timo Werner er ansi ofalega á óskalista samlanda síns, Jurgen Klopp.
Timo Werner er ansi ofalega á óskalista samlanda síns, Jurgen Klopp. vísir/epa

Þýska dagblaðið Bild greinir frá því í dag að Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, vilji hitta Timo Werner á næstunni til þess að kynnast honum betur og sannfæra hann um að koma til Bítlaborgarinnar þegar hann tekur sitt næsta skref.

Klopp hefur lengi verið talinn mikill aðdáandi Werner sem leikur nú með RB Leipzig í Þýskalandi en líklegt er að hann vilji taka næsta skref á sínum ferli. Kórónuveiran gæti komið í veg fyrir það í sumar en þá myndi hann líklega fara frá Þýskalandi í janúar á næsta ári - eða sumarið þar á eftir.

Klopp horfir til þess þýska sem ódýrari leikmann samanborið við þá Jadon Sancho og Kylian Mbappe sem hafa einnig verið orðaðir við Liverpool en Bild greinir frá því að Klopp vilji hitta Werner og ræða betur við hann undir fjögur augu.

Sömu sögusagnir segja að þessi fundur hefði líklega verið búinn að eiga sér stað ef ekki hefði verið fyrir kórónuveiruna. Liverpool er ekki eitt um Werner því þýsku risarnir í Bayern Munchen eru einnig taldir áhugasamir. Þeir hafa þó ekki, líkt og Liverpool, opinberað áhuga sinn á Werner.

Werner var spurður út í Liverpool eftir sigur Leipzig á Tottenham í Meistaradeildinni fyrr í vetur og þar talaði hann ansi vel um félagið sem og stjórann Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×