Skoðun

Já takk, ég vil ferðast um Ís­land!

Marta Eiríksdóttir skrifar

Auðvitað ætla ég að ferðast um landið mitt í sumar og hlakka mikið til að sjá gamla og nýja staði aftur. Suma staði hef ég ekki séð í nokkur ár því ég hef forðast að ferðast á eftirlætisstaðina mína Gullfoss, Geysi, Þingvelli og fleiri staði. Nú verður allt breytt því nú verður pláss fyrir mig í mínu eigin landi. Yndisleg tilhugsun. Nú ætla ég að ferðast að degi til eins og aðrir, en ekki á bjartri sumarnóttu þegar best var að heimsækja fjölfarna staði, á meðan túristarnir sváfu.

Já Ísland er landið, mér þykir mjög vænt um að fá að upplifa landið mitt aftur í sumar. Rifja upp og sjá allt sem landið hefur að bjóða mér í dag. Náttúran kallar á mig, yndislega tæra náttúra Íslands en með færra fólki í sumar. Dásamlegt.

Ég vona bara að ég fái að tala íslensku aftur þegar ég kem inn á veitingastaði eða hótel, kaupi mér pylsu í vegasjoppunni eða bensín á bílinn. Ég vona einnig að ég fái að kaupa mér súkkulaðikökusneið á eðlilegu hóflegu verði sem passar buddunni minni en Íslendingar hafa þurft að þola ýmislegt undanfarin ár þegar græðgi staðarhaldara hefur séð til þess að fjölskylda búsett á Íslandi hefur ekki getað leyft sér þann munað að staldra við og njóta veitinga því allt hefur verið á uppsprengdu verði. Allir ætluðu að græða á útlendingunum en gleymdu þeim sem búa allt árið í landinu og starfa á íslenskum láglaunataxta. Ótrúlegt þetta græðgisgen í sumum, Kári mætti rannsaka það.

Já, ég hlakka til að njóta lands míns og náttúru eins og ég gerði óáreitt hér áður fyrr þegar mér var fagnað á ferð minni um landið í sveitum og bæjum, þá sáu íbúarnir fáa aðra en eigin bæjarbúa yfir vetrartímann. Já, ég hlakka til að sjá hvernig landsmenn mínir hafa það, heyra íslenska tungu á vesturlandi, norðurlandi, austurlandi og suðurlandi. Mikið verður gaman að sjá aftur allt fólkið sem býr í landinu okkar. Nú býr hér allskonar fólk frá allskonar löndum allt árið um kring, yndælt fólk sem er að gera góða hluti hingað og þangað og talar meira að segja íslensku.

Það er einn draumur sem ég veit ekki hvort ég fái að upplifa í sumar en það er langþráð heimsókn í Bláa lónið en eins og allir vita þá hefur verðlag þar aðeins passað buddu efnaðra Íslendinga eða útlendinga sem láta sig hafa það að borga himinhátt verð í eitt skipti.

Ég er alin upp á Suðurnesjum og man vel þegar við, almenningur fórum fyrst frítt ofan í lónið. Seinna þegar rekstur var kominn utan um lónið, gátum við farið ofan í lónið á góðviðrisdögum án þess að borga mikið. Öll fjölskyldan samankomin með börn og nesti í þá daga enda ekkert veitingahús komið, sátum og sóluðum okkur í skeljasandinum sem var við lónið og dýfðum kroppnum ofan í heitt vatnið öðru hvoru. Þarna vorum við í nokkrar klukkustundir þegar vel viðraði. Þá var Bláa lónið fjölskylduvænt og notalegt umhverfi. Mikið var gaman þá, þegar græðgin og girndin í öllu sínu veldi var ekki mætt í Bláa lónið. Mig langar að fara aftur ofan í Bláa lónið í sumar og óska eftir ódýru tilboði þaðan fyrir mig og alla þjóðina. Mikið væri það fallega gert, takk.

Ætli það sé ekki betra að fagna vel Íslendingum í sumar. Loksins! Lækka verðið og gera vel við þjóðina sem á það svo sannarlega skilið, búin að vera innilokuð í nokkrar vikur eða mánuði vegna veirunnar og hlýða Víði. Nú er lag fyrir ykkur sem eruð í ferðamannabransanum, að fá íslenska traffík í hús, taka hlýlega á móti okkur, því það fréttist fljótt hverjir gera vel við okkur. Hlakka til að heimsækja ykkur!

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×