Innlent

Eldgosið í Eyjafjallajökli varð ein af stærstu fréttum áratugarins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Raufarfellsbæirnir undir samnefndu felli sjást nær.
Frá eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Raufarfellsbæirnir undir samnefndu felli sjást nær. Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

„Eyjafjallajökull, hann gerði okkur grikk. En á sama tíma gerði hann okkur líka greiða,“ segir Katrín Júlíusdóttir, sem var ráðherra ferðamála þegar Eyjafjallajökull gaus.

„Við lentum náttúrlega þarna í miðjum heimsfréttum. Þetta varð gríðarlega mikil frétt og í raun og veru komst Ísland sem aldrei fyrr í sviðsljósið,“ segir Guðjón Arngrímsson, sem var upplýsingafulltrúi Icelandair.

„Forvitni umheimsins virðist hafa verið vakin með svo hraustlegum hætti að ég held stundum að við höfum vanmetið hvað þetta hafði gríðarleg áhrif,“ segir Friðrik Pálsson, fyrsti formaður stjórnar Íslandsstofu og eigandi Hótels Rangár, um landkynningaráhrif gossins.

Þau þrjú eru meðal viðmælenda í tveimur þáttum sem Stöð 2 hefur framleitt í tilefni tíu ára afmælis eldgossins í Eyjafjallajökli, en seinni þátturinn verður sýndur í kvöld.

Skýr vitnisburður um stærð gossins sem heimsfréttar fékkst í lok síðasta árs þegar breska Sky News-sjónvarpsstöðin valdi Eyjafjallajökul eina af fréttum áratugarins. 

Sjá einnig hér: Eldgosið í Eyjafjallajökli meðal frétta áratugarins hjá Sky

Meðal annarra atburða sem Sky taldi upp voru jarðskjálftinn á Haiti, drápið á Osama bin Laden, andlát Nelsons Mandela, Ebóla-faraldurinn, hryðjuverkaárásin í Bataclan-tónleikahúsinu í París, sigur Donalds Trump í bandarísku forsetakosningunum, fjöldamorðið við Mandalay Bay-hótelið í Las Vegas, Brexit og loftlagsmótmælin.

Fyrri þátturinn um Eyjafjallajökul var sýndur á Stöð 2 síðastliðið mánudagskvöld. Síðari þátturinn verður sýndur á Stöð 2 í kvöld, á annan í páskum, kl. 18.40.

Hér má sjá upphafskafla fyrri þáttarins:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×