Sport

Fagna deildarmeistaratitli heima í stofu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þórsarar fengu ekki að taka á móti deildarmeistaratitlinum í raunheimum.
Þórsarar fengu ekki að taka á móti deildarmeistaratitlinum í raunheimum. mynd/facebook-síða handknattleiksdeildar þórs

Íslensk íþróttafélög hafa sum hver orðið af miklum tekjum í kjölfar þess að allt íþróttastarf var stöðvað hér á landi í síðasta mánuði vegna útbreiðslu kóronaveirufaraldursins. 

Forráðamenn félaganna hafa með ýmsum hætti reynt að vinna inn einhverjar tekjur fyrir sín félög með fjáröflunum auk þess sem vinsælt er að setja upp eins konar sýndarleiki þar sem félagsmenn eru hvattir til að greiða sig inn á leik sem fer ekki fram.

HSÍ ákvað í síðustu viku að aflýsa öllu mótahaldi á vegum sambandsins. Í kjölfarið varð ekkert af afhendingu deildarmeistaratitils í Grill 66-deild karla þar sem Þór hafði þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar.

Akureyringar biðluðu til stuðningsmanna sinna að kaupa miða á síðasta heimaleikinn, þar sem lyfta átti titlinum á loft og fagna um leið árangri liðsins heima við eins og sjá má hér fyrir neðan.

Fleiri félög hafa farið svipaða leið. Olís-deildarlið FH hefur sett í gang sölu á miðum á næsta heimaleik FH, þó óljóst sé hvenær hann fari fram, svo dæmi sé tekið.

Nágrannar Þórs á Akureyri í KA hafa boðað til „sýndartvíhöfða“ í KA-heimilinu þar sem hægt er að borga sig inn á leiki hjá KA og KA/Þór í þeim tilgangi að styrkja handknattleiksdeildina en einnig hafa KR og Stjarnan farið svipaða leið í körfuboltanum eins og áður hefur verið greint frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×