Fótbolti

Selja aðgöngumiða á leiki í Hvíta-Rússlandi út um allan heim og setja gínur í stúkuna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr stúkunni á bikarleik Dynao Brest í miðri viku.
Úr stúkunni á bikarleik Dynao Brest í miðri viku. Dynamo Brest

Hvergi er spilaður fótbolti í efstu deild í Evrópu þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins nema í Hvíta-Rússlandi þar sem boltinn rúllar á fullu og hefur deildin þar í landi aldrei fengið jafn mikla athygli utan Hvíta-Rússlands enda hvít-rússneskur fótbolti ekki hátt skrifaður öllu jafnan.

Kórónaveiran er engu að síður farin að láta á sér kræla í Hvíta-Rússlandi eins og annars staðar og hefur áhorfendum á leiki snarfækkað að undanförnu. Hins vegar hefur áhorf á deildina í sjónvarpi aukist verulega og munar þar mest um fótboltaþyrsta áhorfendur hvaðanæva úr heiminum.

Meistaralið Dynamo Brest hefur brugðið á það ráð að selja þessum nýja áhorfendahópi miða á heimaleiki sína og setja í staðinn upp gínur með myndum af viðkomandi í stúkuna. 

„Með þessum hætti getur sá sem er að horfa á leikinn í sjónvarpi séð sjálfan sig í stúkunni. Við erum ekki að reyna að fylla stúkuna með þessu og við skiljum að stuðningsmenn okkar mæti ekki lengur á leikina. Við viljum reyna að gera gott úr þessu með skemmtilegum hugmyndum,“ sagði Vladimir Machulsky, fjölmiðlafulltrúi Dynamo Brest.

Alls keyptu 12 manns þessi sýndarsæti ef svo má segja í fyrstu tilraun þegar Dynamo mætti Shakhter Soligorsk í bikarnum í miðri viku og komu áhorfendurnir frá sex mismunandi löndum, meðal annars frá Bandaríkjunum og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×