Skoðun

Áfengi - ekki við hæfi barna

Páll Jakob Líndal skrifar

Fyrir barn í leik er sárt að horfa á að leikföngunum sé sparkað út um öll gólf, að sjá þau svífa fram af svölunum niður á steinsteypta stétt og mölbrotna, að þurfa að týna brotin og smáhlutina úr blómabeðum.

 Sjá kertastjaka, lampa, stóla, blómapotta í þúsund molum á gangstéttinni upp að húsinu í bland við sængur, púða, teppi og púða, þegar snúið er aftur úr heimsókn hjá vini. Búa við stanslausan ótta um að heimilislífið geti í einu vetfangi leyst upp í hringleikahús brjálæðis þar sem fólkið sem stendur manni næst, hnakkrífst og jafnvel kemur til handalögmála. Hurðarskellir, svívirðingar, hótanir, í bland við óskir um eilífa vist í helvíti.

 Horfa upp á þann sem á að vera stoð og stytta, fyrirmynd, kennari og leiðbeinandi, rænulítinn og út úr heiminum. Verða vitni af botnlausri eftirsjá, hlusta á loforð um bót og betrun, hlusta á aðra trúa á bót og betrun, trúa því sjálfur að þetta muni lagast ... vitandi að eftir 1, 2 eða 3 daga mun sama stjórnleysið taka við aftur, sama hringekjan.

Myndirnar hrúgast inn þegar ég hugsa til æskuára minna ... fullkominn vanmáttur og stjórnlaus kvíði. Gjörsamlega óþolandi og yfirþyrmandi ástand. Allt heimilið leið fyrir áfengisneyslu eins fjölskyldumeðlims. Allir voru markaðir fyrir lífstíð.

Og nú er dómsmálaráðherra að vinna hörðum höndum að því að auka aðgengi að áfengi. Að þessu sinni er það á forsendum atvinnufrelsis, á forsendum samkeppni ... og hvað fleira var búið að tína til?

Við lifum nú á tímum Covid-19. Það eru settar hömlur á okkur. Frelsi okkar er skert. Af hverju? Jú, til að vernda okkur frá smiti en EKKI SÍÐUR til að VERNDA AÐRA frá því að við smitum þá. Það sama gildir um löggjöf varðandi áfengi. Henni er ætlað að vernda neytendur EN EKKI SÍÐUR að vernda þá sem liðið geta fyrir áfengisneyslu annarra, s.s. börn.

Að þetta dæmalausa mál skuli enn einu sinni vera uppi á borðum er bara sorglegt. Þeir sem vinna að lýðheilsumálum og velferð barna mótmæla einum rómi. Ég mótmæli af öllu hjarta.

Höfundur er doktor í umhverfissálfræði.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×