Erlent

Dauðsföllum fækkar á Spáni fjórða daginn í röð

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðsmenn sótthreinsa sjálfa sig og sjúkrabíl sem var notaður til að flytja sjúkling með kórónuveirusmit í Guadalajara í dag.
Slökkviliðsmenn sótthreinsa sjálfa sig og sjúkrabíl sem var notaður til að flytja sjúkling með kórónuveirusmit í Guadalajara í dag. Vísir/EPA

Vonir standa til þess að kórónuveirufaraldurinn hafi náð hámarki sínu á Spáni eftir að nýjum dauðsföllum fækkaði fjórða daginn í röð þar. Spánn glímir nú við flest tilfelli kórónuveiru í Evrópu og hafa ríflega þrettán þúsund manns látið lífið í faraldrinum.

Tala látinna hækkaði um 637 á milli daga í dag og hefur dauðsföllum ekki fjölgað eins lítið frá 24. mars, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC .

Þá bættust 4.273 ný smit við í dag. Þegar mest var létust 950 á fimmtudag. Alls hafa nú 135.032 greinst með veiruna á Spáni. Mannfallið á Spáni er það mesta í heiminum á eftir Ítalíu.

María José Sierra, varaformaður heilbrigðisnefndar Spánar, segir að svo virðist sem að hægja sé tekið á útbreiðslu veirunnar í nær öllum héruðum landsins.

Umfangsmikil samgöngu- og útgöngubönn hafa verið í gildi í þrjár vikur og er búist við því að þær verði það að minnsta kosti út þennan mánuð. Búðir og fyrirtæki eru lokaðar og fólki hefur verið sagt að halda sig heima.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra, sagði að mögulega yrði slakað á aðgerðunum eftir páska og fólki sem vinnur störf sem eru ekki skilgrein sem nauðsynleg verði jafnvel leyft að snúa aftur til vinnu. Aðgerðirnar verða þó áfram í gildi til 25. apríl þar sem þær bjargi mannslífum.

Spænskir embættismenn segjast nú hafa í hyggju að prófa fleiri einstaklinga fyrir veirunni, jafnvel fólk sem er ekki með einkenni.

„Það er mikilvægt að vita hver er smitaður til að gefa smám saman létt á aðgerðum á spænska borgara,“ segir Arancha González, utanríkisráðherra.


Tengdar fréttir

Yfir 10.000 fallið frá á Spáni

Yfir tíu þúsund manns hafa nú látist af völdum kórónuveirunnar á Spáni. Tilkynnt var um yfir 900 dauðsföll af völdum veirunnar síðasta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×